Fyrrum knattspyrnumaðurinn og vandræðagemsinn Joey Barton hefur gengið berserksgang á samfélagsmiðlum frá því í gærkvöldi.
Barton var greinilega mjög ósáttur með útsendingar frá ensku úrvalsdeildinni á Amazon í gær en sex leikir fóru þá fram. Fjöldi kvenna kom þá fyrir á skjánum að fjalla um leikina.
„Konur ættu ekki að tala um karlaleikinn af neinni alvöru,“ skrifaði Barton meðal annars.
„Tölum um hlutina eins og þeir eru. Þetta eru mismunandi leikir. Ef þú sérð það ekki munum við alltaf hafa mismunandi skoðun. Kvennaleiknum gengur vel og það er gaman að sjá en ég tek engu alvarlega sem þær segja um karlaboltann.
Hvaða karlmaður sem starfar með þeim er búinn að selja sig.“
Barton lék fyrir lið á borð við Manchester City og Newcastle á ferli sínum sem leikmaður og þá hefur hann þjálfað Fleetwood og Bristol Rovers.