Mál knattspyrnumannsins Alberts Guðmundssonar, leikmanns ítalska knattspyrnuliðsins Genoa, er komið inn á borð embættis héraðssaksóknara frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
RÚV greinir frá þessu en Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, staðfesti við fréttastofuna að kynferðisbrotamál sem hafi verið kært til lögreglu í sumar sé komið á borð embættisins en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Greint var frá því í ágústlok að búið væri að kæra Albert fyrir nauðgun og í kjölfarið var hann ekki valinn í íslenska landsliðið í knattspyrnu enda kveða reglur KSÍ um að óheimilt sé að velja leikmann í hópinn ef mál er í gangi gegn viðkomandi hjá lögreglu.
Albert hefur neitað sök í málinu sem hefur ekki haft áhrif á stöðu hans hjá ítalska liðinu. Þar hefur hann verið lykilmaður í vetur og spilað fantavel en hann hefur ekki spilað síðustu leiki vegna meiðsla. Hefur hann verið orðaður við stærri lið í Evrópu í kjölfar góðs gengis.