„Enn heldur minn ágæti gamli vinur, Sigmar Guðmundsson, áfram að valda mér vonbrigðum með málflutningi sínum,“ sagði Bjarni í færslu á Facebook í gærkvöldi.
Bjarni vísaði þar í ræðu Sigmars Guðmundssonar á Alþingi í gær, sem Vísir gerði skil í gærkvöldi, þar sem Sigmar kvaðst ósammála gagnrýni Bjarna á þátt Kveiks sem sýndur var í fyrrakvöld. Í umræddum þætti var fjallað um krónuna og er óhætt að segja að Bjarni hafi verið ósáttur með efnistökin og talaði hann um að þátturinn innihéldi áróður.
Sigmar gagnrýndi Bjarna í ræðustól Alþingis í gær og sagði meðal annars:
„Þátturinn dró fram mismunandi sjónarmið í samfélagi þar sem beinn kostnaður við krónuna er í kringum 300 milljarðar á ári. Þetta var stórfínn þáttur. Fyrrverandi fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, brást við með fjölmiðlarýni. Þetta er áróður gegn krónunni og hneyksli, segir hann, án þess að nefna eina einustu staðreyndavillu. Bjarni, sem ber auðvitað mikla ábyrgð á vaxtabrjálæðinu sem núna er allt að drepa, segir að í þáttinn hafi vantað umræðu um gengisáhættu og er þar að vísa í myntkörfulánin fyrir hrun. En hvað sagði Bjarni Benediktsson um nákvæmlega þetta í lok árs 2008 þegar þjóðin sleikti sár sín, m.a. vegna þess að gjaldmiðillinn hrundi? Þar sagði hann, með leyfi forseta:
„En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu …“
Þegar nákvæmlega sömu sjónarmið og hans árið 2008 eru veðruð í gær af virtum hagfræðingur þá heitir það hneyksli og áróður gegn krónunni. Nýi Bjarni er sem sagt að gagnrýna gamla Bjarna fyrir áróður og er hneykslaður.“
Bjarni svaraði Sigmari á Facebook í gærkvöldi og sagði að sumt af því sem við erum að glíma við leiði af aðstæðum sem sem við stöndum frammi fyrir.
„Sumt af því sem við erum að glíma við leiðir af aðstæðum sem við höfum ekki náð nægilega góðum tökum á, eins og framboði af húsnæði, á meðan annað leiðir af ytri aðstæðum líkt og stríði og orkukreppu. Vinnumarkaðurinn hefur verið ósamstíga og kröfugerð ólíkra hópa ósamrýmanleg, en vonandi horfir það til betri vegar í yfirstandandi kjaralotu. Hér hefur þess utan verið mun meiri hagvöxtur en í flestum nálægum ríkjum sem óhjákvæmilega hefur áhrif á vaxtastig. Þessi viðfangsefni hverfa ekki með öðrum gjaldmiðli,“ sagði Bjarni sem sagði að Viðreisn hefði í kosningum reynt að höfða til kjósenda með loforði um nýjan gjaldmiðil ásamt ESB-aðild, en ítrekað mistekist.
„Sigmar ætti e.t.v. að taka upp samtal við fólkið í landinu að nýju í stað þess að hneykslast á því að ég hafi skoðun á umfjöllun Ríkisútvarpsins. Hann biður um rök fyrir gagnrýni minni líkt og hann sé enn starfsmaður Ríkisútvarpsins. Þeir eru allnokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn sem sjá rautt ef orði er hallað á þessa stofnun sem við þó eigum öll saman. Hún er hvorki eign núverandi né fyrrverandi starfsmanna. Og má aldrei vera yfir gagnrýni hafin,“ sagði Bjarni meðal annars.
Þá bætti hann við að það sem Sigmar og andstæðingar krónunnar ættu að gera sé að efna til málefnalegrar umræðu um raunverulega ástæðu verðbólgu og vaxta í landinu í stað þess að benda á gjaldmiðilinn, mælitækið, sem sökudólg. „Það væri, tel ég, gagnleg og þörf umræða, langt umfram þessa þráhyggju með evruna.“
Færslu Bjarna má lesa í heild sinni hér að neðan en þar kemur meðal annars fram að Bjarni standi við gagnrýni sína á þáttinn. „Þar skorti allt heildarsamhengi hlutanna og þátturinn fær þess vegna falleinkunn hjá mér,“ segir hann.