Kl. 14:35 í dag var tilkynnt um umferðarslys við Hamraborg í Kópavogi, nánar tiltekið við gangbraut fyrir framan Bókasafn Kópavogs. Vegfarandi sem var nýkominn út úr safninu varð vitni að því er bíll ók á stúlkubarn sem var að ganga yfir gangbrautina. Tilkynnti hann atvikið til lögreglu.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð 3, staðfesti upplýsingarnar í samtali við DV. Segir hann bílinn hafa verið á 5-10 km/klst. hraða og því megi vænta þess að áverkar hafi ekki verið alvarlegir. Gunnar segir að um hafi verið að ræða sex ára gamla stúlku. Ekki kemur fram í skráningu lögreglu hvort hún var flutt á sjúkrahús né hvernig líðan hennar er háttað eftir slysið.
Áðurnefndur sjónarvottur segist hafa séð barnið liggja í götunni eftir slysið.