Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal fór að tala í gátum í gær þegar hann var spurður út í mistök David Raya í sigrinum á Luton í ensku úrvalsdeildinni.
Raya gerði mjög slæm mistök í tveimur af þeim mörkum sem Luton skoraði í 3-4 sigri Arsenal á útivelli.
Mikið er rætt og ritað um stöðu markvarðar hjá Arsenal enda var Raya fenginn til félagsins í sumar og Aaron Ramsdale skellt á bekkinn.
Arteta hefur tekið ákvörðun um að Raya sé hans fyrsti kostur í markið. „Ég er virkilega sáttur með liðið,“ sagði Arteta þegar hann var spurður út í það hvort það væri eðlilegt að ræða um að Raya hefði gefið tvö mörk.
Fréttamaðurinn vildi þá fá svör um frammistöðu Raya og spurði Arteta hvort hann væri búinn að ræða við hann.
„Ég spjallaði við alla leikmennina, það eru allir virkilega glaðir með sigurinn,“ sagði Arteta og skautaði framhjá því að ræða um mistök Raya.