Pylsa með gosi er dýrust á Íslandi af öllum verslunum Costco í heiminum. Þetta afar vinsæla tilboð kostar 299 krónur hér á landi.
Það var matarvefurinn The Daily Meal sem gerði verðsamanburð á tilboðunum á milli landa. Í Bandaríkjunum hefur verðið verið hið sama, 1,5 dollari, í hartnær fjóra áratugi. Í dag eru þetta 209 krónur íslenskar.
Stjórnarformaður Costco, Craig Jelinek, segist alls ekki ætla að hætta með þetta tilboð eða breyta verðinu á því. Það myndi hreinlega gera út af við hann.
Costco rekur um 860 verslanir, þar af nærri 600 í Bandaríkjunum. En einnig fjölmargar verslanir í Kanada, Mexíkó, Japan, Bretlandi, Ástralíu og fleiri löndum. Eina Costco verslunin á Norðurlöndum er í Garðabænum en fyrirhugað er að opna verslun í Svíþjóð.
Pylsu og gostilboðið er reyndar alls ekki ódýrast í Bandaríkjunum. Í Kanada kostar það einnig 1,5 dollar en Kanadadollarinn er á lægra gengi. Tilboðið kostar því einungis 154 krónur þar í landi. Þar að auki geta Kanadamenn valið um nautakjötspylsu eða pólska pylsu en pólska pylsan var tekin úr sölu í Bandaríkjunum árið 2018.
Í Mexíkó kostar pylsutilboðið hins vegar 279 krónur, hátt í það sem það kostar á Íslandi. Hins vegar eru jalapenos og laukur á pylsunum þar þannig að fólk fær í raun meira fyrir peninginn.
Í Ástralíu kostar tilboðið 181 krónu og aðeins 167 í Japan. Í báðum þessum löndum er hins vegar aðeins boðið upp á svínakjötspylsur. Einnig í Kína þar sem tilboðið er á sama verði og í Bandaríkjunum, 209 krónur.
Tilboðið er dýrara í Evrópu. Í Bretlandi kostar það 264 krónur og 230 krónur í Frakklandi og á Spáni.