Declan Rice skoraði sigurmark Arsenal á útivelli gegn Luton í kvöld á 97 mínútu. Allt stefndi í jafntefli þegar Rice skoraði.
Gabriel Martinelli kom Arsenal yfir eftir tuttugu mínútna leik en Gabriel Osho jafnaði fyrir Luton fimm mínútum síðar.
Gabriel Jesus kom Arsenal aftur yfir þegar fyrri hálfleik var senn á enda.
Nýliðarnir í Luton settu svo í gír í síðari hálfleik en fengu mikla hjálp frá Raya í marki Arsenal.
Elijah Adebayo skoraði eftir hornspyrnu þar sem David Raya óð út í teiginn en greip í tómt. Á 57 mínútu átti svo Ross Barkley fast skot að marki sem fór undir Raya og í markið.
Luton var þó ekki lengi í paradís því þremur mínútum síðar jafnaði Kai Havertz leikinn. Allt stefndi svo í jafntefli þegar Rice skoraði sigurmarkið með skalla á 97 mínútu en uppgefinn uppbótartími var sex mínútur.