Árlegir aðventutónleikar Flugfreyjukórs Icelandair verða í Laugarneskirkju á morgun, miðvikudaginn 6. desember, og hefjast klukkan 20.
Sú nýbreytni er að þessu sinni að aðgangur er frír á meðan húsrúm leyfir og óhætt er að mæla með því við alla sem ætla að njóta ljúfra tóna að mæta tímanlega.
Kórstjóri nú, eins og undanfarin ár, er enginn annar en Magnús Kjartansson. Vignir Þór Stefánsson leikur undir á píanó og Ingólfur Magnússon á bassa.
Jólahugleiðinguna í ár flytur Birna Katrín Sigurðardóttir, flugfreyja.
Undanfarna daga hefur Kórinn glatt samstarfsfólkið hjá Icelandair með heimsóknum og söng og á mánudaginn var slegið upp tónleikum í starfsstöð félagsins á Keflavíkurflugvelli.
Eftir tónleikana á miðvikudagskvöld býður kórinn öllum viðstöddum upp á kakó og piparkökur í félagsheimili Laugarneskirkju.
Tónleikarnir í fyrra voru vel sóttir og gestir nutu frábærs flutnings fallegra jólalaga og kórinn var klappaður upp í tvígang.
Tónleikarnir hefjast klukkan 20 annað kvöld, miðvikudagskvöldið 6. desember.