Manchester Evening News greinir frá því á vef sínum að fjölmiðlinum hafi verið bannað að mæta á blaðamannafund Erik ten Hag, stjóra Manchester United, af félaginu vegna umfjöllunnar um slæmt gengi liðsins undanfarið.
Þá segir Manchester Evening News að fjölmiðillinn sé einn af fjórum sem hefur verið meinað að mæta á fund dagsins sem kemur í aðdraganda leiks liðsins gegn Chelsea annað kvöld.
United hefur átt verstu byrjun á tímabili frá því félagið féll síðast úr efstu deild og hefur Manchester Evening News verið mjög gagnrýnið á stöðuna. United gefur upp að ástæðan fyrir banninu sé að fjölmiðillinn hafi ekki haft samband við félagið í tengslum við frétt sem fjallaði um að margir leikmenn United væru að missa trúna á Ten Hag.
Manchester Evening News segir einnig í grein sinni um bannið frá fundinum í dag að fjöldi blaðamanna hafi kvartað undan því að samskiptafulltrúi United, Andrew Ward, hafi meinað þeim að spyrja ákveðinna spurninga á blaðamannafundum.