Axel er í dag á mála hjá Örebro, þar sem hann er samningsbundinn út árið. Hann gekk í raðir Riga snemma árs 2021 og var í rúmt ár hjá félaginu. Forseti félagsins var moldríkur Rússi sem bjó í Dúbaí og á Kýpur.
„Þannig ég skrifa undir hjá þeim í Dúbaí, þar sem þeir eru í æfingaferð. Það er tekin af mér mynd og snekkja á bak við,“ segir Axel léttur.
„Þeir eru brjálaðir. Ég var ekki búinn að sofa í einhverja 26 tíma út af ferðalagi. Þeir sendu mig beint í hlaupapróf, hlaupa eins mikið og þú getur á hlaupabretti. Ég var búinn á því og grét liggur við í bílnum á leiðinni að skrifa undir. Þetta var rosalegt.“
Forsetinn var ekki hræddur við að rífa upp veskið fyrir hinu og þessu eins og Axel kemur inn á.
„Þegar ég var búinn að vera þarna í viku átti forsetinn afmæli. Þá leigði hann heila hæð í Burj Khalifa. Hann tók allar stærstu stjörnur Rússlands, söngvarar og þess háttar. Svo sögðu þeir mér hvað þetta kvöld kostaði, það kostaði 85 milljónir íslenskra króna.
Ef við unnum leik þarna þá var það bara: „Forsetinn gefur ykkur góðan bónus.“ Þetta var klikkað,“ segir hann.
Axel glímdi töluvert við meiðsli á þessum tíma en forráðamenn Riga voru ekki alveg til í að sýna því skilning.
„Ég var byrjunarliðsmaður og það gekk mjög vel þegar ég spilaði. Þá fæ ég eitthvað aftan í hnéð sem átti að vera þriggja vikna meiðsli. En þá langaði svo hrikalega að ég myndi spila áfram þó ég væri meiddur. Ég sagði bara að þetta væri ekki hægt, ég væri meiddur. Ég fæ sprautur í hnéð og eitthvað kjaftæði,“ rifjar Axel upp en hann fékk engin svör um hvað væri í sprautunum. „Á endanum fann ég samt út að þetta væru ekkert sterar eða svoleiðis. En það er ekkert lyfjaprófað úti í Lettlandi.
Þeir vildu að ég spilaði næsta leik og ég gerði það. Svo varð þetta bara verra og verra. Þannig þriggja vikna meiðsli urðu fimm mánuðir. Þeir voru með tíu sjúkraþjálfara en þeir fengu ekki að ráða förinni. Það voru þrír directors (yfirmenn knattspyrnumála) sem réðu öllu. Þetta voru engir directors, þetta voru dictators (einræðisherrar). Þú þurftir alltaf að tala við þá. Þeir réðu þjálfarann, þeir völdu í liðið.“
Meiðslin héldu áfram að hrjá Axel og var hann ekki til í að halda einfaldlega áfram að spila ofan í þau.
„Ég sagði bara hingað og ekki lengra, ég væri ekki að lagast og ætlaði heim til Íslands að hitta sjúkraþjálfara landsliðsins hér. Hann sagði mér að ég þyrfti bara að taka mánuð í burtu, engin aðgerð og þá væri ég góður. Bara byrja á núlli. Ég læt hann meira að segja tala við þá úti og þeir sögðu að það væri allt í góðu.“
Svo var hins vegar ekki.
„Við kærasta mín fljúgum aftur til Riga en þegar ég lendi þá opna ég símann: „Þú átt flug til Slóveníu í fyrramálið. Aðgerð.“ Ég sagði bara að ég væri ekki að fara í aðgerð, ég þyrfti ekki aðgerð. En það er ekkert hægt að rífast við þessa kalla.“
Það tókst þó að sannfæra Axel. Aðgerðin gekk upp en kom honum ekki fyrr út á völlinn.
„Ég fór í aðgerð og það gekk mjög vel en ég var lengur í burtu. Ég bjó í Maribor í Slóveníu í tvo mánuði. Þeir gáfu mér hjól og íbúð.“
Axel rifjar líka upp þegar hann fékk svæsna matareitrun en Riga vildi lítið fyrir hann gera er hann gekk í gegnum það.
„Ég var á spítala í fjóra daga. Enginn talaði ensku. Ég hélt ég væri að deyja. Um eina nóttina labbaði ég fram á gang og kallaði hjálp, þetta var eins og í bíómynd. Ég fékk þúsund evru reikning en þeir borga ekki neitt, þó félög eigi að borga svona. Maður er á þeirra vegum. Svo er æfingaleikur tveimur dögum seinna og þeir sögðu mér að ég myndi spila hann,“ segir Axel.