Anton er að klára sitt fjórða tímabil með Blikum en þar áður var hann hjá Val, þar sem hann varð til að mynda Íslandsmeistari í tvígang. Hann hefur þó hlotið töluverða gagnrýni á þessari leiktíð fyrir frammistöðu sína.
Magnús bróðir hans var í ítarlegu hlaðvarpsviðtali við 433.is um sumarið hjá Aftueldingu, framhaldið og fleira en þar var hann einnig spurður út í Anton og hvort það hafi jafnvel komið til greina að fá hann til Aftureldingar, þar sem þeir báðir eru uppaldir.
„Við hittumst auðvitað oft og spjöllum en við höfum ekki talað beint um þetta. Hann er auðvitað samningsbundinn Breiðabliki í eitt ár í viðbót og ég mun ekkert taka neina umræðu við hann um þessi mál nema það komi skilaboð frá Breiðabliki um að hann sé á förum,“ sagði Magnús.
„Hann mun spila aftur fyrir Aftureldingu. Ég held að það sé alveg pottþétt. En hvenær, það verður bara að koma í ljós. Hann er samingsbundinn Blikum og þó að hann sé bróðir minn má ég ekkert vera að svindla og reyna að lokka hann yfir. Meðan það er svoleiðis er ekkert að fara að gerast en ef það breytist þá mögulega tökum við púlsinn á honum. En það er ekkert til að tala um í dag.“
Magnús telur að umræðan um Anton á leiktíðinni eigi að mörgu leyti rétt á sér en að hún sé þó stundum ósanngjörn.
„Hann hefur ekki átt gott tímabil og væri fyrsti maðurinn til að viðurkenna það sjálfur. En á sama tíma gleymist oft að hann á þrjá Íslandsmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og hefur gert frábæra hluti á ferlinum. Þetta tímabil er að mínu mati „one off“ hjá honum. Hann er frábær markvörður og ég held hann eigi nóg inni.
Gagnrýnisraddirnar eru alveg skiljanlegar. Að sjálfsögðu má gagnrýna hann og hann veit alveg þegar hann gerir mistök og annað. En ég tek undir það sem margir hafa sagt líka að mér finnst hann stundum fá of óvæga gagnrýni. Það má ekki gleymast líka að það eru varnarmenn fyrir framan hann. Og í leiknum á móti Maccabi (Tel Aviv í Sambandsdeildinni), auðvitað á hann eitt mark í þeim leik en færin sem Breiðablik fékk til að skora í leiknum, það er ekkert talað um þau. Það er svo auðvelt að hjóla í hann og ég veit ekki af hverju það er. Mér finnst hann ekki fá þá virðingu sem hann á skilið, hann hefur unnið fleiri titla en þessir meðspilarar hans í Breiðabliki í gegnum tíðina, hann hefur gert meira en þeir flestir. Þannig mér finnst ódýrt að hjóla alltaf í hann þó hann sé ekki yfir gagnrýnina hafinn.“
Þá furðar Magnús sig á því að danski markvörðurinn Mark Fabricius Jensen, sem er á mála hjá Start, hafi æft með Breiðabliki í síðasta mánuði í aðdraganda leiksins gegn Maccabi. Blikar gáfu þá skýringu að Jensen hafi verið hér á landi í landsleikjahléinu og fengið að æfa með Blikum á meðan.
„Svo er áhugavert í aðdraganda leiksins að það sé annar markvörður mættur á æfingu og umræðan mjög skrýtin. Maður veit ekki alveg hvað er satt og logið í þeirri umræðu. Ég held að það sé ekki heldur til að efla sjálfstraustið hjá leikmanni sem mögulega er ekki með sjálfstraustið upp á tíu út af því sem á undan hefur gengið á þessu tímabili,“ sagði Magnús.