Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt konu sem ákærð var fyrir fjársvik sem fólust í því að hún sótti um bílastyrk en nýtt styrkinn síðan ekki til bílakaupa. Í ákæru var þetta orðað svo:
„fyrir fjársvik með því að hafa, þriðjudaginn 23. júní 2020, í blekkingarskyni sótt um styrk til bifreiðakaupa til A, kt. 000000-0000, […], […], að fjárhæð kr. 360.000, og lagt fram kaupsamning að bifreiðinni […] með umsókn. Styrkurinn var greiddur út 25. júní 2020 án þess að kaupverð bifreiðarinnar væri nokkru sinni greitt og fór afhending bifreiðarinnar því aldrei fram, en ákærða hélt eftir, í eigin þágu, styrknum til kaupanna.“
Brotið varðar við 248. grein almennra hegningarlaga, sem er svohljóðandi:
„Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“
Konan mætti ekki við réttarhöldin og hélt ekki uppi vörnum í málinu. Var hún fundin sek og dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Einnig þarf hún að greiða verjanda sínum rétt rúmar 150 þúsund krónur í þóknun.