fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Gabríela furðar sig á afskiptum Sigurðar: „Veit hann um einhvern föður sem hefur verið fangelsaður fyrir svipað brot?“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 4. desember 2023 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gabríela Bryndís Ernudóttir sálfræðingur furðar sig á afskiptum Sigurðar Arnar Hilmarssonar, formanns Lögmannafélags Íslands, af máli Eddu Bjarkar Arnardóttur sem var handtekin hér á landi í síðustu viku og framseld til Noregs.

Sigurður skrifaði grein á vef Vísis á föstudag þar sem hann minnti á að hnefarétturinn mætti ekki ráða för. Beindi hann orðum sínum að fólki sem lagði leið sína á Hólmsheiði aðfaranótt föstudags til að koma í veg fyrir flutning Eddu Bjarkar til Noregs.

Útkljá ekki deilumál á vegslóða

„Telji einhver brotið á réttindum sínum er ávallt hægt að leita laganna leiða, en hnefarétturinn getur ekki ráðið för. Við útkljáum deilur okkur fyrir dómstólum, en ekki á vegslóða við Hólmsheiði,“ sagði hann meðal annars í grein sinni og bætti við að sem samfélag hefðum við sett okkur sáttmála; stjórnarskráin geymi grundvallarreglur okkar, Alþingi setji lögin og dómstólar leysi úr ágreiningi um réttindi og skyldur borgaranna.

Þá mætti hann einnig í Sprengisand á Bylgjunni í gær þar sem hann fór yfir málið með Helgu Völu Helgadóttur lögmanni.

Misboðið sem karlmanni?

Gabríela er formaður Lífs án ofbeldis en er í leyfi frá þeim störfum um þessar mundir. Í grein sinni á Vísi í gærkvöldi sagðist hún mjög ósammála Sigurði að fólk megi ekki mótmæla því að sjö barna móðir sé framseld í gæsluvarðhald og að börnin hennar þurfi að vera móðurlaus um jólin.

„Ég held nú að þessi börn hafi ekkert sérstaklega samþykkt þennan samfélagslega sáttmála sem formaðurinn vísar í. Reyndar má benda á að stjórnarskrá Íslands var aldeilis ekki samin af kvenfólki heldur,“ segir hún í grein sinni og bætir við:

„En það sem fór þó hvað mest fyrir brjóstið á mér, er að formaðurinn missti út úr sér í viðtalinu: „Hvað ef niðurstaðan í þessu máli, væri einfaldlega omvendt? Ef móðirin hefði fengið börnin og faðirinn væri að beita öllum þessum ráðum? Væri allt þetta fólk sömu skoðunar? Ég held bara ekki. Og þess vegna höfum við sett lög um þetta.“ Sem sagt, formaðurinn segist hafa áhyggjur af réttarríkinu, en virðist svo raunverulega vera ekki síður misboðið sem karlmanni. Hann hefur áhyggjur af því að ef faðir fyndi sig í sömu stöðu, fengi hann ekki sama stuðning.“

Í öllum tilvikum mæður

Af þessum sökum spyr Gabríela:

„Ég get því ekki annað en spurt, veit formaðurinn um marga feður sem hafa verið framseldir frá Íslandi í mánaðarlangt gæsluvarðhald fyrir að vernda börnin sín? Veit hann um einhvern föður sem hefur verið fangelsaður fyrir svipað brot yfir höfuð? Veit hann um marga feður sem hafa verið gerðarþolar í aðfararmáli?“

Gabríela segist vita að svarið sé nei enda þekki hún öll aðfararmál sem hafa átt sér stað á Íslandi síðastliðinn áratug eða meira. Í öllum tilvikum hafi gerðarþoli í framkvæmdri aðför verið móðir, og í öllum tilvikum hafi móðir og börn verið þolendur ofbeldis föður.

„Þau börn sem orðin eru fullorðin í dag, halda sig enn við frásögn sína af ofbeldi. Rannsóknir sýna að líkur á því að móðir missi forsjá til föður aukast til muna, ef móðirin ásakar föðurinn um ofbeldi, og aukast enn meira ef faðirinn sakar móðurina á móti um tálmun. Kynbundið ofbeldi þrífst mjög vel í forsjármálum um allan heim, svo ég tel ástæðulaust að formaður Lögmannafélags Íslands mæti í útvarpsviðtal til að lýsa áhyggjum af ósanngjörnu viðhorfi til feðra í forsjármálum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt