Gengið hefur verið frá ráðningu Söndru Sigurðardóttur sem framkvæmdastjóra HK. Sandra er með víðtæka reynslu úr íþróttastarfi sem yfirþjálfari og framkvæmdastjóri fimleikadeildar Hamars og stjórnarmaður í fimleika- og knattspyrnudeild félagsins ásamt því að hafa sinnt stjórnarsetu og trúnaðarstörfum fyrir ýmis sérsambönd.
Hún hefur verið í eigin rekstri tengdum heilsueflingu, starfað sem kennari á leikskóla- og grunnskólastigi og verið leiðandi í bæjarmálum í Hveragerði.
Sandra er með b.sc. gráðu í íþrótta- og heilsufræði og MBA próf frá Háskóla Íslands, hefur fjölbreytta stjórnunarreynslu og mikla reynslu af stefnumótun og innleiðingu stefnu. Sandra mun hefja störf 1. febrúar 2024.
„Ég mæti spennt til leiks í nýju verkefni og hlakka til að stækka og efla HK hjartað. Félagið hefur mikla vaxtamöguleika í gegnum allar þær fjölbreyttu deildir sem þar eru og komandi uppbyggingu á félagssvæðinu. Við erum með öflug þjálfarateymi og metnaðarfulla sjálfboðaliða sem ég hlakka til að starfa með auk þeirra tæpu þrjú þúsund iðkenda sem hjá félaginu eru. Við ætlum að fjölga þeim enn frekar um leið og við skilum bikurum í hús,“ segir Sandra Sigurðardóttir, nýráðin framkvæmdastjóri HK: