fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Virðingarleysi fyrir handverki

Eyjan
Sunnudaginn 3. desember 2023 15:28

Úr veitingasal La Cigale í Nantes í Frakklandi. Innréttingarnar eru svo að segja óbreyttar frá vígslu staðarins 1895

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í sumar sem leið snæddi ég kvöldverð á hinu fornfræga veitingahúsi La Cigale í Nantes í Frakklandi. Innréttingar hússins eru óvenju vandaðar og íburðarmiklar — og nálega óbreyttar frá því að staðurinn var vígður hinn 1. apríl 1895. Þetta leiddi ósjálfrátt hugann að því brenglaða verðmætamati sem við verðum sífellt vitni að hér heima, þar sem menn víla ekki fyrir sér að fleygja vönduðum harðviðarinnréttingum ellegar ganga svo langt að jafna við jörðu rammgerar byggingar — og sem aldrei fyrr. Í borgum í nálægum löndum er stefnan sú að rífa helst ekki hús, heldur reyna til þrautar að endurnýta þau og finna þeim nýtt hlutverk. Hér á landi er allt annað uppi á teningnum og vönduð mannvirki jöfnuð við jörðu í stórum stíl.

Ég velti því fyrir mér hvort allt þetta niðurrif sé ekki hreinlega birtingarmynd landlægs virðingarleysis fyrir handverki. Hér á landi er nefnilega útbreiddur sá misskilningur að menntun sé ekkert annað en bóklegt langskólanám. Ef betur er að gáð er vandað handverk afrakstur slíkrar innri menntunar að hún verður ekki numin nema með þrautþjálfun árum saman. Það er eins margur hreinlega skilji þetta ekki og telji að nóg sé að vera „fimur í fingrunum“.

Lítill vilji til að læra af reynslu annarra

Kannski er ólán að í okkar tungumáli er notað sama orð fyrir verksmiðjuiðnað og handverk; allt er kallað iðnaður, en alltént er ljóst að skilningsleysi á vönduðu handverki endurspeglast í pólitíkinni — enda ekki margir iðnmeistarar í röðum kjörinna fulltrúa. Þau sjónarmið hafa til að mynda átt talsverðu fylgi að fagna að afnema sem mest lögverndun starfsgreina. Málsmetandi iðnmeistarar hafa varað við slíkum tilburðum. Í þeim felist aðför að fagmennsku og afleiðingin verði fúsk og svört atvinnustarfsemi, það sýni reynslan frá öðrum löndum. Meðal þeirra sem reglulega hafa stungið niður penna í vörn fyrir handverkið er Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara. Hann hefur til að mynda bent á að Þjóðverjar hafi dregið úr lögverndun starfsheita fyrir tæpum tveimur áratugum en snúið aftur til fyrra fyrirkomulags nýverið í ljósi hörmulegrar reynslu, en einkum og sér í lagi bitni fúskið á neytendum.

Virðingarleysi fyrir menntun

Í byrjun þessa árs var efnt til ráðstefnu í Háskólanum í Reykjavík um fúsk í byggingastarfsemi og galla sem af því hlytist en ráðstefnan var haldin til heiðurs dr. Ríkharði Kristjánssyni verkfræðingi sem starfaði við Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hér á árum áður, meðan sú stofnun var og hét. Í viðtölum við dr. Ríkharð af þessu tilefni nefndi hann að fúsk við húsbyggingar hér á landi ylli milljarðatjóni á ári hverju — en fúskið væri litlu minna hjá þeim sem hafa ættu eftirlit með byggingastarfsemi. Kaupendur nýrra fasteigna tryðu því að gætt væri að fagmennsku en svo sé ekki raunin. Hið opinbera leggur sáralitla áherslu á eftirlit með fagmannlegum vinnubrögðum og því hvort þeir sem annist smíðina hafi tilskilin réttindi. Þarna endurspeglast líklega skilningsleysi ráðamanna á gildi vandaðs handverks og fagmennsku — og um leið virðingarleysi fyrir menntun.

Félag iðn- og tæknigreina hefur ítrekað gagnrýnt að ráðist sé í umfangsmiklar byggingaframkvæmdir hér á landi án þessi að einn einasti fagmenntaði iðnaðarmaður sé að störfum. En ráðamenn hafa skellt skollaeyrum við ábendingum iðnfélaga um skort á fagmennsku, samhliða umfangsmikilli svartri atvinnustarfsemi. Það er engu líkara en stundarágóði sé kjörorð dagsins.

Nær væri að fjölga iðngreinum

Eggert Jóhannsson feldskeri ræddi um fagmennsku handverksmanna í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins í fyrrasumar. Það var um það leyti sem ráðherra kynnti áform sín um að fella niður löggildingu margra iðngreina. Ein þeirra sem var afnumin í kjölfarið var einmitt feldskurður, sem Eggert benti á að væri löggilt iðngrein í öllum helstu nágrannalöndum okkar. Hann sagði miður að handverk væri almennt á undanhaldi. Það að fáir hefðu numið tiltekna iðngrein gætu ekki verið rök fyrir afnámi löggildingar og nefndi hann Dóru Jónsdóttur silfursmið sem dæmi en hún væri sérhæfð í víravirki sem sé ævafornt handverk hér á landi. Réttara væri að fjölga löggiltum iðngreinum.

Fleiri mótmæltu afnámi löggildingar. Þeirra á meðal var Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, en í því félagi eru meðal annarra skipa- og bátasmiðir, en sú iðngrein var ein þeirra sem var afnumin. Það sýndi að hans viti hversu skyni skroppnir íslenskir ráðamenn væru að ætla sér að ráðast í slíkar breytingar á sama tíma að önnur Evrópuríki væru á nýjan leik að fjölga löggiltum iðngreinum — enda hefðu menn brennt sig illa á fúskinu.

Afturför

Forngrikkir lögðu vandað handverk að jöfnu við listaverk og notuðust við orðið tekhne (gr. τεχνή) í þessu sambandi. Hugtakið felur í sér þekkingu og aðferð til að gera eitthvað. Þeir höfðu þannig að líkindum dýpri skilning á gildi handverks en við í okkar samtíma. Bersýnilega þarf að verða vitundarvakning um gildi vandaðs handverks og um leið hverfa frá því brenglaða verðmætamati sem birtist í sinni ýktustu mynd í niðurrifi vandaðra stórhýsa. Að öllum líkindum mun þjóðfélag okkar hljóta dapurlegri eftirmæli í þessu tilliti en ýmis samfélög fornaldar. Stundum er nefnilega sem mannsandanum fari beinlínis aftur þrátt fyrir síbyljuna um takmarkalausar framfarir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt

Þorsteinn Pálsson skrifar: Miskunnsamur Samverji lögum samkvæmt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Úr Hrunamannahreppi í Hafnarfjörð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Úr Hrunamannahreppi í Hafnarfjörð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins
EyjanFastir pennar
23.06.2024

Björn Jón skrifar: Frjálslyndir jafnt sem íhaldssamir án hugsjóna

Björn Jón skrifar: Frjálslyndir jafnt sem íhaldssamir án hugsjóna
EyjanFastir pennar
22.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
17.06.2024

Svarthöfði skrifar: Pössum upp á Bjarna Ben

Svarthöfði skrifar: Pössum upp á Bjarna Ben
EyjanFastir pennar
16.06.2024

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt