Goðsögin Lothat Matthaus hvetur landa sinn, Thomas Muller, til að yfirgefa Bayern Munchen á næsta ári.
Muller er ekki lengur fastamaður í byrjunarliði Bayern en hefur lengi verið einn allra besti leikmaður liðsins.
Þrátt fyrir að vera orðinn 34 ára gamall er Muller mikið orðaður við Manchester United en Erik ten Hag, stjóri liðsins, er mikill aðdáandi.
Muller spilaði 27 deildarleiki á síðustu leiktíð og hefur spilað tíu hingað til en hann er oftar en ekki notaður sem varamaður.
Matthaus er sannfærður um að það sé rétt fyrir Muller að færa sig um set en hann hefur allan sinn feril leikið með þýska stórliðinu.
,,Hjá Bayern Munchen þá er hann ekki að fá sömu mínútur og hann fékk fyrir tveimur árum,“ sagði Matthaus.
,,Ef hann er með sama sjálfstraust og fyrir tveimur árum þá ætti hann að skipta um félag, það þarf að segja það opinberlega.“
,,Það er eins og hann sé á hraðri niðurleið, þetta snýst um hvað Thomas vill gera. Er hann ánægður með að vera varamaður eða jafnvel spila ekki neitt?“