Jamie Carragher, goðsögn Liverpool, var harðorður í garð markmannsins Andre Onana fyrir helgi eftir leik Manchester United og Galatasaray.
Onana var ekki sannfærandi í 3-3 jafntefli í Meistaradeildinni en hann hefur hingað til ekki verið mjög öruggur á tímabilinu.
Carragher telur að Onana sé að fá of mörg tækifæri og of mikið traust í markinu og ef hann væri leikmaður úr akademíu félagsins fengi hann ekki eina einustu mínútu til viðbótar í vetur.
Onana spilaði einnig með Man Utd í gær sem tapaði 1-0 gegn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni.
,,Onana kostaði liðið stig bæði heima og úti gegn Galatasaray og var lélegur gegn Bayern Munchen,“ sagði Carragher.
,,Hann varði víti gegn FC Kaupmannahöfn á Old Trafford en það er einn plús á móti mörgum mínusum. Hvernig hann stóð sig í Tyrklandi, það er óásættanlegt fyrir markmann Manchester United.“
,,Ef hann væri leikmaður úr akademíunni og hefði boðið upp á sömu frammistöðu þá myndi hann aldrei spila fyrir aðalliðið aftur. Hann hefur kostað allt of mörg mörk.“