Það er ljóst hvaða liðum Ísland mætir ef liðið fer alla leið í lokakeppni EM sem hefst í Þýskalandi á næsta ári.
Ísland er á leiðinni í umspil í gegnum Þjóðadeildina og þarf að vinna Ísrael í fyrstu umferð og mætir svo annað hvort Bosníu eða Úkraínu.
Ísland myndi fá ansi þægilegan riðil ef farið er alla leið í lokakeppnina en dregið var í riðlana í dag.
Andstæðingar Íslands yrðu Rúmenía, Slóvakía og Belgía og myndum við leika í E riðli að þessu sinni.
Age Hareide, landsliðsþjálfari, hafði þetta að segja eftir dráttinn í dag.
,,Auðvitað er þetta mjög áhugavert og gefur okkur kleift á að plana fram í tímann, við vitum hvar við myndum spila og gegn hvaða liðum,“ sagði Age.
,,Við erum hins vegar ekki komin þangað, það er enn langt í að við komumst í lokakeppnina svo ég vil ekki tjá mig um dráttinn.“
,,Það eina sem við einbeitum okkur að er umspilið í mars, það er það eina sem skiptir máli og við þurfum að gera vel gegn Ísrael.“