fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Bannfæring fortíðarinnar

Eyjan
Laugardaginn 2. desember 2023 14:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt er víst í áranna rás að tímarnir breytast og mennirnir með. Það getur heldur ekki annað verið, því stöðug og öflug barátta fyrir mannréttindum og frelsi undirokaðra hefur skilað sér í gerbreyttu samfélagi frá einni öld til annarrar.

Og sakir þessa breytast viðhorf. Það sem þótti eðlilegt í eina tíð er í skásta falli óeðlilegt á öðrum tímum.

Hér kallast á gamlir tímar og nýir. Og enda þótt þeir gömlu kunni að þykja undarlegir og jafnvel andstyggilegir þá liðu þeir með þeim hætti sem var og þóttu viðunandi í huga fólks sem þekkti ekki annað, jafnvel þótt mannvonskan, fyrirlitningin og útilokunin hafi ráðið för. Og flestir létu sem lífið ætti að vera svona. Einhver hæfileg blanda af brasi og ótta.

Aldamótakynslóðin frá því fyrir rífri öld vandist því að vera barin á fingurna með kennarapriki ef hún hlýddi ekki fyrirskipunum yfirvaldsins. Það þótti hæfileg refsing. Í þá daga.

Á öllum stúdentsmyndunum frá þeim sama tíma var gjarnan ein kona í hópi fimmtíu karla eða svo. Það þótti viðunandi hlutfall. Í þá daga.

Faðir minn hélt suður til háskólanáms um miðja öldina á meðan móður minni bauðst að sækja húsmæðraskóla. Hann varð fyrirvinnan eins og það var kallað. Hún gætti bús og barna svo sem það var nefnt. Í þá daga.

Sjálfur gekk ég í barnaskóla þar sem flestir fengu að ganga inn að framan eftir að hafa jafnað bilið í röðinni út á skólalóð. En tossarnir voru skildir að. Þeir gengu inn að aftan, ofan í kjallara hússins. Enginn kennari gerði athugasemd við það á þeim tíma.

Og þroskahamlað fólk á hvaða aldri sem var sást ekki á almannafæri á þessum sama tíma. Til þess voru hælin að hafa það inni. En bæjarbúar voru almennt sáttir við þennan feluleik.

Í útvarpi allra landsmanna voru söngvar samkynhneigðra bannaðir. Af óttanum einum saman.

„Nú er svo komið á nýrri öld að við núlifendur fordæmum fortíðina.“

Á nýrri öld finnst okkar hræðilegt að hugsa til þess hvernig farið var með fólk – og hvernig því var mismunað eftir hæfni, efnum, kyni, kynhneigð og ætterni.

Meginreglan var að mismuna.

Og gilti einu þótt einstaka baráttumenn, konur og karlar, reyndu að vekja máls á því sem betur mætti fara í mannúð og réttindum fólks. En þar fóru tómir sérvitringar.

Á meðan hafði afturhaldið hag af því að halda samfélaginu í sínu gömlu skorðum.

Nú er svo komið á nýrri öld að við núlifendur fordæmum fortíðina með eins skammarlegum umsögnum og tungumálið megnar. Okkur er í rauninni svo misboðið að við viljum breyta löngu liðnum atburðum, ellegar bannfæra þá.

Og allt er dæmt á forsendum okkar tíma.

Stóra spurningin er auðvitað sú hvort það sé sanngjarnt gagnvart sögunni. Getum við ætlast til þess að gömlu dagarnir fari að hugsa sinn gang og gera eitthvað í því sem þeir standa fyrir í huga okkar seinni tíma fólks. Erum við mannfólkið á líðandi stundu orðin svo góð með okkur að við getum ætlast til þess af liðinni tíð að hún lagi sig að okkar tíma. En einmitt það er spurningin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim