Það eru margir sem hafa upplifað erfiða æsku og síðar náð langt í sínu lífi og gott dæmi er fyrrum enski úrvalsdeildarleikmaðurinn George Elokobi.
Elokobi er í dag þjálfari Maidstone á Englandi en hann gerði garðinn frægan sem leikmaður Wolves og spilaði í ensku úrvalsdeildinni um tíma.
Elokobi er í dag 37 ára gamall og hefur lagt skóna á hilluna en hann kemur frá Kamerún og átti mjög erfitt uppdráttar á sínum yngri árum.
Fjölskylda leikmannsins var mjög fátæk og þurfti hann oft sjálfur að veiða í matinn og nefnir þar snáka og fugla.
,,Ég átti ansi erfiða æsku. Pabbi minn lést þegar ég var tíu ára og hann var mín fyrirmynd. Það komu dagar þar sem ég gat ekki borðað, ég leitaði í ruslinu eftir mat,“ sagði Elokobi.
,,Ég var líka í því að elta fugla, ég notaði vopn eða gildrur. Ef það virkaði ekki þá þurfti ég að eltast við og borða snáka eða kartöflur sem var ekki búið að þvo.“
,,Ég þurfti að sætta mig við hvað sem ég gat sett í magann á mér. Við vorum ekki með rennandi vatn og þurftum að labba kílómetra fram og til baka til að redda því fyrir fjölskylduna.“