„Edda er à leið til Noregs. Fulltrúar ríkislögreglustjóra mættu á staðinn um leið og ég var farin frá henni í morgun, þeir sneru hana niður og handjárnuðu! Samfangar hennar gátu náð sambandi við lögmann hennar til að láta vita af þessum aðförum. Sjálf fékk hún ekkert tækifæri til að láta vita af sér. Hvaða viðbjóður er hér í gangi?“
Ragnheiður hefur staðið þétt við bak systur sinnar og var hún í hópi fjölmargra sem tóku sér stöðu fyrir utan fangelsið á Hólmsheiði í gærkvöldi eftir að greint var frá því að til stæði að flytja hana úr landi.
Mbl.is hafði eftir lögmanni Eddu, Jóhannesi Karli Sveinssyni, rétt fyrir klukkan 14 í dag að búið væri að fjarlægja hana úr fangelsinu á Hólmsheiði og það hafi verið gert í flýti. Hvorki hann né aðstandendur hennar viti hvar hún er stödd þessa stundina. Sagði Jóhannes að lögregla hafi komið fyrirvararlaust og fangavörðum verið bannað að láta verjendur eða aðra vita.