fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Kristinn sakar Bubba Morthens um tvískinnung – Ýjar að því að hann hafi leyft skuggapenna að nota nafn sitt

Eyjan
Föstudaginn 1. desember 2023 11:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri vestfirska miðilsins Bæjarins bestu, gagnrýnir Bubba Morthens harðlega í grein á miðlinum og sakar hann um „alvarlegan tvískinnung“ þegar kemur að gagnrýni hans á styrktarsamning Arnarlax við Handknattleikssamband Íslands. Bendir Kristinn á að tónlistarmaðurinn hafi sjálfur þegið greiðslu frá Arnarlaxi fyrir að koma fram á tónleikum fyrir nokkrum árum en þegar íþróttasamband geri slíkt krefst Bubbi afsagnar formannsins. Þá ýjar Kristinn að því að Bubbi, sem og Guðmundur Þ. Guðmundsson fyrrum landsliðsþjálfari í handbolta, hafi leyft skuggapenna að nota nöfn þeirra á greinar sem birtust í fjölmiðlum þar sem áðurnefndur samningur var gagnrýndur.

Þann 22. nóvember síðastliðinn greindi HSÍ frá samstarfi sínu við Arnarlax sem vakti hörð viðbrögð í samfélaginu. Guðmundur fyrrum landsliðsþjálfari brást þegar í stað við með hvassri færslu á samfélagsmiðla þar sem hann kallaði samninginn hneyksli. Bubbi svo stuttu síðar frá sér aðsenda grein sem birtist á Vísi þar sem hann tók undir gagnrýni Guðmundar. Bar greinin yfirskriftina „Nú eru þeir strákarnir þeirra“ en í henni kallaði Bubbi eftir afsögn formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar.

„Þarna kemur fram alvarlegur tvískinningur“

Kristinn birti svo grein á BB.is í gærkvöldi þar sem hann rifjar upp að Bubbi hafi árið 2017 „slíðrað sverðin við Arnarlax“ og þegið greiðslu frá fyrirtækinu fyrir að spila á tónleikum í Bíldudal. Ákvörðun Bubba var gagnrýnd en hann tónlistarmaðurinn vísaði þeirri gagnrýni til föðurhúsanna og kallaði hana „bull“.

„Þarna kemur fram alvarlegur tvískinningur hjá tónlistarmanninum. Honum finnst það allt í lagi að hann sjálfur fái greitt frá Arnarlax en reginhneyksli að HSÍ fái greitt frá Arnarlax. Þegar hann fær greitt er það fáránlegt bull að gagnrýna það en þegar HSÍ fær greitt er formaður HSÍ sakaður um dómgreindarbrest og ætti að segja af sér. Það er ekki svo að formaður HSÍ sé að fá peningana í eigin vasa, þeir fara í að kosta starfið, en það á við um Bubba, peningarnir fór beint í hans vasa. Karlalandsliðið fær þá einkunn hjá tónlistarmanninum að þeir séu nú ekki lengur strákarnir okkar, þ.e. þjóðarinnar heldur strákarnir þeirra, þ.e. Arnarlax. Bubbi afneitar landsliðinu af þeirri einu ástæðu að hann er á móti Arnarlax. En með þessu bendir hann á sjálfan sig fyrir sex árum og segir að hann hafi verið strákurinn þeirra sem honum fannst á þeim tíma vera ekkert ankannalegt,“ skrifar Kristinn.

Spyr hver skuggapenninn er

Þá bendir hann á ýmsar staðreyndavillur í grein Bubba en ýjar svo að því að Bubbi, sem og Guðmundur, hafi leyft skuggapenna að nota nöfn sín í baráttunni gegn sjókvíaeldi. Telur Kristinn upp líkindi í textum beggja og telur hann að sami maður hafi skrifað textann.

„Spurningin sem vaknar er hver skrifaði þennan texta. Líklegt er að hvorki Bubbi né Guðmundur hafi samið textann heldur hafi þeir fengið hann sendan og þeir samþykkt að skrifa sig fyrir honum. Með öðrum orðum að einhver áróðursmeistari andstæðinga sjókvíaeldisins hafi lagt til efnið og skipulagt birtinguna. Sé það rétt til getið hafa þeir báðir vísvitandi samþykkt að nota nafn sitt í áróðursstríðinu gegn laxeldinu á Vestfjörðum,“ skrifar Kristinn.

Hér má lesa grein Kristins í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt