„Það sést á nýjasta útspili Strætó að vera með vagnverði sem ganga um og sekta fólk í vögnunum sem getur ekki sýnt fram á greiðslu að Strætó er í mikilli afneitun,“ segir Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í grein á Vísir.is.
Ragnhildur segir að greiðsluappið Klapp bili í tíma og ótíma og Klappkortið sé ekki skárra. Vegna þessa vanda hafi vagnstjórar hleypt farþegum um borð sem séu rétt viðbrögð, ekki sé gott að sparka fólki úr strætisvagni vegna þess að greiðsluleiðin virki ekki. Síðan segir hún:
„En hvernig bregðast stjórnendur Strætó við þessu? Ekki með því að fleygja Klapp appinu og taka bara upp einfalt posakerfi við biðstöðvar. Nei, þeirra lausn er að halda í ónýta kerfið og sekta og kasta óheppnum farþegum út úr vögnunum í staðinn. Talandi um að byrja á öfugum enda.“
Ragnhildur segir að Strætó sé fastur í vítahring og borgarfulltrúar meirihlutans í Reykjavík reyni að varpa ábyrgðinni á ástandinu yfir á ríkið. Ragnhildur segir að ekki eigi að ráða vagnverði eins og nú er fyrirhugað, það eigi bara eftir að fæla enn fleiri farþega frá strætisvögnunum. Hún ráðleggur Strætó líka að fleygja Kapp-appinu:
„Mitt rekstrarráð til Strætó er að hætta snarlega að eyða peningum í Klapp. Það er bara sokkinn kostnaður og að reyna rétta það app við er ávísun á meiri tíma- og peningasóun. Það sama gildir fyrir allar markaðsherferðir og launakostnað vegna nýrra vagnvarða á meðan þetta app er enn í notkun og þjónustan er svona óáreiðanleg. Þeim peningum væri miklu betur varið í nýtt greiðslukerfi líkt og það sem öll lönd í kringum okkur nota. Það þarf handbremsubeygju ef Strætó á að komast á rétta braut ekki vagnverði.“
Sjá nánar á Vísir.is.