fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Uppnám vegna ákvörðunar Creditinfo um að nýta upplýsingar um eldri vanskilasögu fólks sem er ekki lengur í vanskilum: „Það er kominn tími á nýja búsáhaldabyltingu“

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 29. nóvember 2023 14:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 23. nóvember síðastliðinn tilkynnti Creditinfo um breytingar sem fyrirtækið hefur gert við mat á lánshæfi einstaklinga. Breytingin felst í því að eldri upplýsingar, en áður, um greiðslusögu einstaklinga eru aðgengilegar við gerð lánshæfismats. Áður voru 2 ára gamlar upplýsingar aðgengilegar en það viðmið hefur hækkað upp í 4 ár. Þessar breytingar hafa í mörgum tilfellum orðið til þess að lánhæfismat fólks hefur lækkað skyndilega og í sumum tilfellum sett fjárhag þeirra sem orðið hafa fyrir þessu í uppnám. Dæmi eru um að fólk sem áður var í vanskilum en stendur nú í skilum hafi orðið fyrir skyndilegri lækkun á lánshæfismat þess. Eldri skráningar um vanskil sem ekki voru lengur aðgengilegar við mat á lánshæfi eru nú aftur orðnar aðgengilegar með þessum afleiðingum.

Talsvert hefur verið kvartað undan þessu í Facebook-hópnum Fjármálatips og fjöldi fólks hefur leitað til Neytendasamtakanna vegna þessara breytinga sem samkvæmt upplýsingum DV munu funda sérstaklega um málið í dag.

Í tilkynningu Creditinfo um þessar breytingar á lánhæfismati segir að þær séu í samræmi við reglugerð 606/2023  um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og málstraust. Í tilkynninguni segir að einn af áhrifaþáttum í lánshæfismati einstaklinga séu upplýsingar um fyrri vanskil. Við þessar breytingar sé litið til eldri upplýsinga um vanskil einstaklinga en áður, en besti sögulegi mælikvarði á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíð sé hvort þeir hafi alltaf gert það áður. Creditinfo leggi þó mikla áherslu á að nota eingöngu sögulegar upplýsingar sem hafi afgerandi áhrif á mat á því hvort staðið verði við skuldbindingar í framtíðinni. Breytingin hafi áhrif til hækkunar eða lækkunar á lánshæfismati eftir því hver vanskilasaga viðkomandi.

Þá leggur Creditinfo áherslu á að breytingarnar hafi orðið til þess að mun fleiri hækki í lánshæfismati en lækki. Þá geti einstaklingar sem lækki í lánshæfismati deilt viðbótargögnum um greiðslusögu sína til þess að ná fram jákvæðum breytingum.

Aftur á byrjunarreit

Í Facebook-hópnum Fjármálatips hefur fjöldi fólks sagt frá því að breytingarnar hafi komið sér verulega illa og sett fjárhag þess í uppnám. Miðað við athugsemdir meðlima hópsins þá er talsvert af fólki sem lent hefur í vanskilum með skuldir en náð að vinna sig úr vandanum, stendur nú í skilum og fengið betra lánstraust fyrir vikið, en stendur nú frammi fyrir því að lánstraustið lækkar aftur. Það setur fjárhag viðkomandi óhjákvæmilega í uppnám og fullyrða sumir að þeir séu í raun komnir aftur á byrjunarreit.

„Það er kominn tími á nýja búsáhaldabyltingu,“ segir einn ósáttur meðlimur hópsins og taka margir undir það.

Einn einstaklingur segist hafa lækkað í lánshæfismati, við breytingar Creditinfo, vegna fyrri skráninga á vanskilaskrá. Viðkomandi segist hafa náð að vinna sig út úr vandanum og sé ekki í vanskilum í dag. Undanfarin tvö ár hafi hann náð að borga allt fyrir eða á eindaga og hafi þannig náð að hækka lánshæfismatið. Það hafi gert honum kleift að fá aukna fyrirgreiðslu hjá fjármálastofnunum sem hafi orðið til þess að hann nái endum saman um öll mánaðamót.

Þessi skyndilega lækkun Creditinfo á lánshæfismati hans þýði að lokað hafi verið fyrir lán og aðra fyrirgreiðslu og sem þýðir að viðkomandi stefnir að  öllu óbreyttu í vanskil.

Hann segist ekki hafa fengið neina tilkynningu um að þessi breyting stæði fyrir dyrum og segist engin svör hafa fengið hjá Creditinfo þegar hann leitaði skýringa. Aðgerðin hafi þannig skapa óvissu og stress um hvernig jólahaldið verði fjármagnað í ár.

Í athugasemdum við færsluna segir nokkuð af fólki frá því að þessar breytingar hafi einnig komið sér mjög illa fyrir það og aukið vanda þess.

Áform komin í uppnám

Annar einstaklingur sem lýsir stöðu sinni á fjármálatips segist hafa verið á vanskilaskrá en náð að ganga frá öllum sínum skuldum og fyrrum skráningar á vanskilaskránni dottið út við mat á lánshæfismati. Það hafi batnað til muna og segist viðkomandi hafa séð fram á betri tíma í sínum fjármálum. Hann hafi með miklu erfiði náð lánstraustinu upp aftur en við breytingarnar hafi lánshæfismatið hans hrunið og fyrri skráningar á vanskilaskrá sé aftur sjáanlegar þegar hann skoðar lánshæfismat sitt hjá Creditinfo.

Viðkomandi segist áður hafa fengið skriflega staðfestingu frá Creditinfo á því að fyrri skráningar vanskilaskrá yrðu ekki aftur aðgengilegar við mat á lánshæfismati hans, eftir að þær duttu upphaflega út, en við það hafi ekki verið staðið að hans sögn.

Hann ítrekar að hann sé ekki í neinum vanskilum. Áður en þessar breytingar hafi skollið á hafi staða hans verið orðin það góð að hann taldi raunhæft að geta keypt íbúð fyrir sig og fjölskyldu sína. Þau áform séu hins vegar komin í uppnám. Þessi einstaklingur gerir athugasemdir við hversu mikil áhrif Creditinfo geti haft á líf fólks hér á landi og fær margar undirtektir við það í atugasemdum sem skrifaðar hafa verið við færslu hans.

Segja skyldu sína að nota áreiðanleg gögn við mat á lánshæfi einstaklinga

DV lagði fram nokkrar spurningar um þessar breytingar við Creditinfo í skriflegu formi. Fyrir svörum var Kári Finnsson markaðs- og fræðslustjóri fyrirtækisins. Spurningar DV og svör Kára, sem eru nokkuð ítarleg, eru eftirfarandi:

Creditinfo segir að breytingarnar séu í samræmi við reglugerð nr. 606/2023 um vinnslu persónuupplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Hvað nákvæmlega er það í reglugerðinni sem varð til þess að Creditinfo gerði þessa breytingu?

„Þann 1. september sl. tók í gildi reglugerð nr. 606/2023 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Reglugerðin er sett á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem kveður á um heimildir til gerð og miðlun lánshæfismats. Nýjasta uppfærsla lánshæfismatsins var gerð í samræmi við umrædda reglugerðarsetningu.

Í 9. gr. reglugerðarinnar koma fram þær reglur sem gilda um notkun gagna við gerð lánshæfismats. Þar er ekki er tilgreint sérstaklega við hvaða árafjölda skuli miða við í tengslum við notkun vanskilagagna við gerð skýrslu um lánshæfi, heldur frekar byggt á því að gögnin byggist á áreiðanlegum upplýsingum sem hafa afgerandi þýðingu og veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort viðkomandi einstaklingur eða lögaðili getur efnt lánssamning. Allt að því gefnu að vinnslan sé að öllu leyti í samræmi við meginreglur persónuverndarlaga um vinnslu persónuupplýsinga.

Tölfræðilíkan Creditinfo Lánstrausts hf. hefur staðfest að eldri vanskilagögn en áður voru notuð, þ.e. aðeins í eitt ár frá afskráningu á vanskilaskrá, uppfylli þessi ströngu skilyrði reglugerðarinnar sem og meginreglur persónuverndarlaganna við vinnslu persónuupplýsinga, en besti sögulegi mælikvarði á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíð er hvort þeir hafi alltaf gert það áður.

Einnig má benda á að einstaklingum er boðið upp á það að heimila notkun aukaupplýsinga við gerð lánshæfismats á Mitt Creditinfo og ef þær upplýsingar sýna að engin fjárhagsleg vandræði hafi komið upp nýlega þá minnka áhrif fyrri vanskil verulega.“

Var þessi breyting alfarið að frumkvæði Creditinfo eða voru það bankar, lánafyrirtæki, lífeyrissjóðir, hið opinbera eða aðrir aðilar sem þrýstu á um þessa breytingu?

Lánveitendur verða lögum samkvæmt að kanna lánshæfi einstaklinga áður en þeir veita lán og samkvæmt reglugerð nr. 606/2023 verða skýrslur um lánshæfi einstaklinga að byggjast á áreiðanlegum upplýsingum sem veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort viðkomandi getur efnt lánssamning. Sérfræðingar Creditinfo leita allra leiða til að hafa lánshæfismat Creditinfo eins áreiðanlegt og kostur er á og því er lánshæfismatið reglulega yfirfarið og uppfært.

Nýjasta uppfærslan byggist fyrst og fremst á setningu reglugerðar nr. 606/2023 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Það ber að athuga að beðið hefur verið eftir umræddri reglugerðarsetningu allt  frá setningu laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem tók gildi 15. júlí 2018 sl.“

Þessi breyting hefur gert mörgum sem náð hafa að vinna sig út úr vanskilum erfiðara fyrir og þetta fólk stendur frammi fyrir því að vera í raun komið aftur á byrjunarreit. Er Creditinfo meðvitað um að þessar breytingar hafa gert fólki í þessari stöðu erfiðara fyrir en áður og hvað finnst fyrirtækinu um það? Telur Creditinfo það ekki vera hlutverk sitt að upplýsingar sem fyrirtækið miðlar gefi sem réttasta mynd af greiðslugetu og lánstrausti hverju sinni og geri einstaklingum sem ekki eru lengur í vanskilum óþarflega erfitt fyrir? Ef ekki lítur Creditinfo svo á að upplýsingar um greiðslusögu 4 ár aftur í tímann gefi réttari mynd af líkum á að fólk standi í skilum til framtíðar heldur en hvort það stendur í skilum í dag?

„Samkvæmt reglugerð nr. 606/2023 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust hvílir fortakslaus skylda á fjárhagsupplýsingastofu að vinna eingöngu með þau gögn sem eru áreiðanlegar og hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhagsstöðu og lánstrausti einstaklinga og lögaðila. Sömuleiðis gerir reglugerðin ráð fyrir þeirri skyldu að skýrslur um lánshæfi skuli byggjast á áreiðanlegum upplýsingum sem veiti áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort viðkomandi muni efna lánssamning. Það er því í raun lagaskylda á fjárhagsupplýsingastofum, rétt eins og Creditinfo, að gerð skýrslna um lánshæfismats sé byggð upp með þeim hætti að upplýsingarnar gefi sem réttasta mynd af lánshæfi viðkomandi aðila.

Sem fyrr greinir hefur tölfræðilíkan Creditinfo Lánstrausts hf. staðfest, með óyggjandi hætti, að notkun lengri vanskilagagna en eitt ár frá afskráningu, uppfylli þessi ströngu skilyrði reglugerðarinnar og meginreglur persónuverndarlaganna. Þá má nefna að samkvæmt 10. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán og 20. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda hvílir lagaskylda á lánveitendum að meta lánshæfi neytanda áður en lánssamningur er gerður. Samkvæmt skilgreiningum þessara laga felst í lánshæfismati mat lánveitanda á lánshæfi neytanda, sem byggist á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort hann getur efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggjast á viðskiptasögu milli aðila og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Í athugasemdum við 10. gr. laga nr. 33/2013 segir m.a. að hugtakið lánshæfismat í lögunum sé víðtækara en greiðslumat og geti tekið til huglægra þátta auk hinna hlutlægu, svo sem skilvísi og greiðslusögu. Þetta megi orða sem svo að með lánshæfismati sé leitast við að staðreyna greiðsluviljann en greiðslugetu með greiðslumati. Samkvæmt þessu er það hlutverk fjárhagsupplýsingastofu að safna og miðla sem áreiðanlegustum upplýsingum, sem gefa sem réttasta mynd af því hvort líklegt teljist að lántaki geti og muni efna lánssamning. Allt með þeim formerkjum að lánveitendur á Íslandi  geti veitt ábyrgar lánveitingar til sinna viðskiptavina sem löggjafarvaldið leggur gríðarleg áhersla á, sbr. fyrrgreindir lagabálkar.

 Hlutverk lánshæfismats er að meta líkurnar á því hvort einstaklingur muni standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Besti sögulegi mælikvarði á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíð er hvort þeir hafi alltaf gert það áður. Áhrif fyrri vanskila á lánshæfismat eru þó þannig að þau eru mest þegar þau eru nýleg en dvína svo með tímanum.

Creditinfo leggur þó mikla áherslu á að nota eingöngu sögulegar upplýsingar sem hafa afgerandi áhrif á mat á því hvort staðið verði við skuldbindingar í framtíð. Þessi breyting hefur því áhrif til hækkunar eða lækkunar á lánshæfismati eftir því hver vanskilasaga viðkomandi er. Það þýðir að lánshæfismat þeirra sem hafa alltaf staðið í skilum, yfir 93% þjóðarinnar, er líklegt til að batna á meðan lánshæfismat sumra þeirra sem hafa ekki alltaf staðið í skilum versnar.“

Hvernig telur Creditinfo þessar breytingar með þeim afleiðingum að eldri upplýsingar um kröfur sem voru í vanskilum en eru ekki lengur í vanskilum eru nú aðgengilegar við mat á lánshæfismati samræmist þessu ákvæði í 5. grein reglugerðarinnar: „Fjárhagsupplýsingastofu er óheimilt að miðla upplýsingum um kröfu sem er ekki lengur í vanskilum.“

„Ákvæði 7. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 606/2023 snýr að takmörkun á miðlun krafna sem ekki eru lengur í vanskilum á vanskilaskrá sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 606/2023 þ.e. í þeim tilvikum þegar kröfur frá kröfuhöfum eða innheimtuaðilum eru ekki vanskilum. Í slíkum tilvikum er óheimilt að skrá slíkar kröfur á vanskilaskrá. Ekki er verið að miðla slíkum gögnum á vanskilaskrá með uppfærslu á lánshæfismati einstaklinga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi
Fréttir
Í gær

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Í gær

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?