Þjóðarsáttin á vinnumarkaði 1990 byggðist á stefnubreytingu í gengismálum.
Í því ljósi kom ekki á óvart í haust að verkalýðshreyfingin skyldi fara þess á leit við Samtök atvinnulífsins að erlendir sérfræðingar yrðu fengnir til að gera óháða könnun á kostum þess og göllum að taka upp stöðugan gjaldmiðil.
Hitt kom á óvart að Samtök atvinnulífsins skyldu hafna svo eðlilegri beiðni.
Mesta furðu vakti þó að forsætisráðherra skyldi í skriflegu svari við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hafna aðkomu ríkisins að slíkri könnun.
Aðskilnaðarstefna
Þrískipt gjaldmiðlakerfi landsins er einstætt. Sú aðskilnaðarstefna veldur meiri misskiptingu og óróa á vinnumarkaði en annars staðar þekkist. Það er rótin að beiðni verkalýðsfélaganna.
Þrennt er athyglisvert við neitun forsætisráðherra:
1) Ríkisstjórn undir forystu VG lokar augunum fyrir aðskilnaðarstefnu á fjármálamarkaði.
2) Ríkisstjórn undir forystu VG tekur einhliða afstöðu með Samtökum atvinnulífsins í veigamiklu jafnréttismáli.
3) Röksemdirnar benda til þess að forsætisráðherra hafi ekki lesið svarið yfir áður en uppkast embættismanna að því var sent Alþingi.
Rökin
Rök forsætisráðherra fyrir því að hafna beiðni verkalýðshreyfingarinnar eru einföld.
Hún segir að árið 2012 hafi verið gefin út skýrsla Seðlabankans um Valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum og aftur hafi verið gefin út skýrsla 2018 um Framtíð íslenskrar peningastefnu. Málið sé full athugað og frekari umræður því með öllu óþarfar.
Báðar þessar skýrslur eru unnar af mjög hæfum sérfræðingum og tveimur virtum forystumönnum í stærsta ríkisstjórnarflokknum. En þær eru ekki unnar af óháðum erlendum sérfræðingum eins og verkalýðshreyfingin fór fram á.
2018 um 2012
Í skýrslunni frá 2018 er sérstaklega vikið að skýrslunni frá 2012. Um niðurstöðu hennar segja höfundar skýrslunnar frá 2018 þetta:
„Það er því kannski ekki að undra að í sérriti nr. 7 Seðlabankans frá september 2012 er ber titil Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum sé lýst ákveðnum efasemdum um hvort yfir höfuð sé hægt að reka sjálfstæða peningastefnu með viðunandi hætti.“
Utan verksviðs
Í skýrslunni frá 2018 er sérstaklega tekið fram að hlutverk nefndarmanna var ekki að skoða kosti og galla krónunnar og bera saman við upptöku annars stöðugs gjaldmiðils.
Um þetta segja höfundar skýrslunnar orðrétt:
„Endurskoðunin gekk út frá þeirri forsendu að krónan verði gjaldmiðill Íslendinga í nánustu framtíð.“
Með öðrum orðum: Verkefni höfunda skýrslunnar frá 2018 var allt annað en verkalýðshreyfingin er að fara fram á 2023.
Óháðir sérfræðingar
Höfundar skýrslunnar frá 2018 fengu nokkra erlenda sérfræðinga til að segja álit sitt. Um grein tveggja sænskra sérfræðinga segja þeir:
„Niðurstaða Andersson og Jonung er því sú að ekki sé hægt að reka sjálfstæða peningamálastefnu á grundvelli verðbólgumarkmiðs hér á landi án þess að notast við höft á fjármagnsflæði. Því leggja þeir til að Ísland hverfi frá flotgengi og verðbólgumarkmiði.
Þessu næst ræða Andersson og Jonung þá spurningu hvort Ísland eigi að ganga í myntbandalag. Sökum þess að umboð nefndarinnar miðaði við að íslenska krónan yrði áfram grundvöllur peningastefnunnar er ekki ástæða til að reifa þá umfjöllun sérstaklega, heldur látið nægja að benda á grein þeirra.“
Gildi ytri endurskoðunar
Erlendir sérfræðingar leysa ekki svo stórt álitaefni fyrir pólitíkina og vinnumarkaðinn. En þeir geta lagt fram nauðsynlegan umræðugrundvöll.
Um mikilvægi óháðra erlendra sérfræðinga segir nefndin frá 2018:
„Regluleg ytri endurskoðun skal fara fram á fimm ára fresti á peningastefnunni. Stuðlar slík endurskoðun að sátt og stuðningi við framkvæmd stefnunnar auk þess að veita Seðlabankanum faglegt aðhald.“
Að henda á lofti
Ég held að forsætisráðherra sé vandari að virðingu sinni en svo að hún hefði notað þessar tvær skýrslur sem röksemd fyrir því að hafna beiðni verkalýðshreyfingarinnar, ef hún hefði lesið þær.
En launþegaforystan getur hent svarið á lofti og lagt óháða skýrslu Svíanna frá 2018 til grundvallar samtölum um varanlegan stöðugleika, aukið jafnrétti á fjármálamarkaði og bætta samkeppnisstöðu atvinnulífsins.
Formaður Viðreisnar á þakkir skyldar fyrir að kalla fram þessa pólitísku stöðu með málefnalegri fyrirspurn.