VAR-dómarinn á leik Paris Saint-Germain og Newcastle í Meistaradeild Evrópu í gær, Tomasz Kwiatkowski, fær ekki að starfa á leik Real Sociedad og RB Salzburg í keppninni í kvöld.
PSG fékk afar umdeilda vítaspyrnu seint í uppbótartíma í gær eftir að boltinn fór í hönd Tino Livramento af líkama hans. Kylian Mbappe fór á punktinn og tryggði Parísarliðinu afar mikilvægt stig sem setur liðið í góða stöðu upp á að fara áfram í 16-liða úrslit á kostnað Newcastle.
Dómari leiksins, Szymon Marciniak, benti ekki á punktinn en víti var dæmt eftir skoðun í VAR þar sem Kwiatkowski sá um hlutina.
Kwiatkowski fær ekki að starfa í Meistaradeildinni í kvöld.