Sparkspekingurinn og Liverpool goðsögnin Jamie Carragher telur að 30 stig gætu dugað til að halda sér uppi í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.
Þriðjungur mótsins er búinn og eru fjögur lið enn með undir 10 stig, Luton með 9, Sheffield United með 5, Everton með 4 og Burnley jafnmörg.
West Bromwich Albion á metið yfir að halda sér uppi á fáum stigum en það gerði liðið með 34 stig tímabilið 2004-2005.
„Ég vil ekki sýna vanvirðingu við liðin sem komu upp en þau hafa átt erfitt uppdráttar,“ segir Carragher en Burnley, Sheffield United og Luton komu upp í úrvalsdeildina í vor.
„Ef þú ferð yfir 30 stigin held ég að þú eigir góðan möguleika á að halda þér í deildinni,“ bætti hann við.