Þetta segir Hörður í hlaðvarpinu Chess After Dark. Åge Hareide er núverandi landsliðsþjálfari og með samning út umspilið en þar mætir Ísland Ísrael í undanúrslitum og líklega Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM næsta sumar ef sá leikur vinnst.
„Ég held að sambandið ætti að þakka Åge Hareide fyrir vel unnin störf og ráða Arnar Gunnlaugsson,“ segir Hörður.
Arnar Gunnlaugsson hefur auðvitað heillað mikið sem þjálfari Víkings undanfarin ár og er hann orðaður við Norrköping í Svíþjóð þessa dagana.
„Engin spurning, ég er kominn á þá skoðun. Norrköping er að falast eftir honum og hann er búinn að vinna tvisvar sinnum tvöfalt með Víkingi. Það segir mér bara ansi mikið. Hann er með persónuleikann og ástríðuna til að taka þetta. Ég hefði ekki sagt þetta fyrir fimm árum en af hverju eigum við ekki að verðlauna hann fyrir það sem hann hefur gert?“