Hinn 28 ára gamli Austin Wells ákvað að láta slag standa, sleppa því að eyða dýrmætum tíma í ferðir til og frá vinnu, og að hanga á leigumarkaði, og keypti sér íbúð á skemmtiferðaskipi. Hann skrifaði undir 12 ára samning fyrir 22 fermetra íbúð og greiddi fyrir 300 þúsund dali eða um 41 milljón króna.
Á skipinu má meðal annars finna 20 veitingastaði og bari, litla bjórbruggun, bókasafn með 10 þúsund bókum, kvikmyndahús, þrjár sundlaugar, líkamsrækt, listasafn, banka, skóla og lækni.
Wells vinnur nú þegar í fjarvinnu hjá Meta og mun gera það áfram. Hann sér fram á það að ferðast um heiminní þrjú og hálft ár. Skipið MV Narrative mun þó ekki leggja í hann fyrr árið 2025 og sigla meðal annars til Rómar, Napólí, Feneyja, Sloveníu, Króatíu, Grikklands og Tyrklands. Á skipinu verða 547 íbúðir og geta 1000 einstaklingar átt þar heimili. Íbúð líkt og Wells er sú minnsta og ódýrasta, en dýrust er 183 fermetra íbúð á tveimur hæðum, með fjórum svefnherbergjum, sem fæst fyrir 8 milljónir dala eða rúman milljarð króna.
Í samtali við CNBC fyrir tæpu ári sagðist Wells spenntastur fyrir því að hann þyrfti ekki að breyta út af daglegri rútínu til að geta séð og ferðast um heiminn. „Ég er að hverfa frá þessu hefðbundna ferðamynstri, að pakka í tösku, fljúga, leigja hótelherbergi, í staðinn mun ég ferðast með íbúðina mína, ræktina, lækni, tannlækni, matvöruverslun með mér.“
Wells segist jafnframt spenntur fyrir að sjá staði sem hann hefði ekki ferðast til með hefðbundnum hætti. Hann segist heldur ekkert hræddur um að skuldbinda sig um of. „Þetta er bara eins og að eiga íbúð. Þú getur selt hana, þú getur leigt hana.“
Þrátt fyrir að koma til með að ferðast til Evrópu og heimsækja borgir og lönd þar, ætlar Wells að vinna á hefðbundnum vinnutíma vestanhafs í Bandaríkjunum.
„Vinnutími minn mun færast í átt að kvöldi, nóttum og mjög snemma á morgnana. En það gefur mér möguleika á að sjá viðkomandi borg frá hádegi til seinni partinn og byrja svo vinnudaginn minn um sex eða sjö á kvöldin. Að vinna á skrýtnum tímum er lítil fórn fyrir að ferðast um heiminn á meðan þú vinnur 9-5.“