Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Mhd Badr Eddin Kreiker um leyfi til að áfrýja dómum Landsréttar og héraðsdóms yfir honum. Kreiker var fundinn sekur um að hafa kveikt í veitingastað sínum í Keflavík og reynt að fá tryggingabætur vegna brunans.
Um var að ræða veitingastaðinn Kebab House í Keflavík. Eldsvoðinn varð þar 21. júní árið 2020. Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir brunann vegna gruns um reykeitrun. Staðurinn var til húsa við Hafnargötu í Keflavík en er ekki starfræktur lengur. Síðar kom í ljós að eigandinn hafði valdið brunanum. Kveikti hann eld á tveimur mismunandi stöðum í húsinu, undir borði við kjötstand og grill annars vegar og hins vegar í hillu undir hitabökkum hjá afgreiðsluborðinu. Hann bar að eldfim efni á þessi svæði og lagði eld að með þeim afleiðingum að eldurinn breiddist út.
Mánuði eftir brunann gerði hann tilraun til að fá greiddar bætur vegna tjónsins hjá VÍS. Tryggingafélagið hafnaði kröfunni með vísan til þess að um íkveikju hefði verið að ræða.
Kreiker var dæmdur í tveggja ára og þriggja mánaða fangelsi.
Í málskotsbeiðni hans til Hæstaréttar segir hann dómana vera ranga og dregur í efa sönnunargildi matsgerða sem aflað er einhliða af lögreglu. „Þá standist mat Landsréttar á sönnunargildi matsgerðar ekki þær kröfur sem gerðar eru í sakamálum og ekki sé unnt að leggja hana til grundvallar sakfellingu þegar öðrum gögnum er ekki til að dreifa. Þá hafi málið verulega almenna þýðingu við túlkun á því hvenær brot telst framið í auðgunarskyni. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til einkum þar sem ætluð brot leyfisbeiðanda séu ósönnuð og margar af mikilvægustu málsástæðum hans hafi ekki fengið umfjöllun hjá Landsrétti. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að Landsréttur hafi við mat á auðgunarásetningi í málinu vikið í verulegum atriðum frá fordæmum Hæstaréttar,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar um málsástæður Kreikers.
Þessu hafnar Hæstiréttur og segir:
„Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.“