Forráðamenn í enskum fótbolta sitja nú á fundi og ræða breytingar á VAR tækninni þar í landi, til skoðunar er að gefa VAR meira vald á leiknum.
Þannig segja ensk blöð frá því að mögulega verði VAR tæknin notuð til að dæma um aukaspyrnur, hornspyrnur og gul spjöld.
Í dag má aðeins nota tæknina til að skoða vítaspyrnur, mörk og rauð spjöld.
Nú vilja margir í enskum fótbolta auka vald VAR og því gæti leikurinn orðið ansi langur ef tæknin fer yfir nánast öll vafaatriði leiksins.
Fundurinn í dag fer fram á hóteli nálægt Heathrow en ensk blöð telja að knattspyrnuleikurinn gæti orðið í kringum 120 mínútur með þessum breytingum. Breytingarnar tæku gildi á næstu leiktíð.
Með komu VAR hefur leikurinn orðið lengri og ekki er óvanalegt að leikurinn fari vel yfir 100 mínútur í dag. Tæknin er þó umdeild og ekki allir sáttir með það hvernig hún er notuð.