Fjölmiðlar víða um heim hafa greint frá því að stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi sent njósnagervihnött á sporbaug um jörðu. Fullyrt er í ríkisfjölmiðlum Norður-Kóreu að leiðtogi landsins Kim Jong Un hafi þegar skoðað myndir sem hnötturinn hafi tekið af Hvíta húsinu og Varnarmálaráðuneytinu í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, auk mynda af flugmóðurskipum í flotastöðinni í Norfolk í Virginíu ríki.
Reuters greinir frá því að gervihnettinum hafi verið skotið á loft í síðustu viku. Sögðu norður-kóresk stjórnvöld að hnettinum væri einkum ætlað að taka myndir af hernaðarmannvirkjum í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu og fylgjast með flutningum á herafla þessara ríkja.
Ríkisfjölmiðlar Norður-Kóreu hafa einnig greint frá því að hnötturinn hafi tekið myndir af borgum og herstöðvum í Suður Kóreu, á kyrrahafseyjunni Guam og á Ítalíu.
Engar myndir úr gervihnettinum hafa verið birtar opinberlega og því hafa greinendur og stjórnvöld annarra ríkja velt því fyrir sér hversu áreiðanlegur hann sé.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa í hyggju að skjóta í fyrsta sinn njósnagervihnetti á loft næstkomandi fimmtudag. Þau segja að ekki hafi tekist að staðfesta fullyrðingar norður-kóreskra stjórnvalda um getu njósnagervihnattar þeirra.
Sérfræðingar segja enga ástæðu til að efast um fullyrðingar Norður-Kóreumanna um að hnötturinn hafi getað tekið myndir af bandarískum flugmóðurskipum. Myndavél með miðlungsgóðri upplausn ráði við slíkt. Spurningin sé hins vegar til hvers ætli Norður-Kórea að nota þessar myndir. Ef myndir úr gervihnetti með miðlungsgóðri upplausn eigi að nýtast í stríðsátökum þurfi Norður-Kórea að skjóta mun fleiri slíkum á loft til að ná fleiri myndum af helstu mannvirkjum óvina ríkisins. Norður-Kórea segist vera að vinna að því að koma fleiri gervihnöttum í loftið.
Norður-Kóresk stjórnvöld segja að staðirnir sem myndirnar voru teknar af séu mikilvæg skotmörk.
Suður-Kórea og Bandaríkin segja Norður-Kóreu hafa gengið gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna með því að skjóta njósnagervihnettinum á loft.