Mykhailo Mudryk, leikmaður Chelsea og landsliðsmaður frá Úkraínu ákvað um helgina að senda skilaboð á íslenska áhrifavaldinn, Brynhildi Gunnlaugsdóttir.
Brynhildur er með yfir 100 þúsund fylgjendur á Instagram en nýtur einnig mikilla vinsælda á TikTok.
Mudryk sendi spurningu á Brynhildi um helgina í skjáskoti sem DV fékk í hendurnar.
„Hvaðan ertu?,“ sendi Mudryk á Brynhildi og hún svaraði því að hún væri frá Íslandi. Ekki er vitað hvort þau hafi átt frekari samskipti.
Chelsea keypti Mudryk í janúar og borgaði þá tæpa 16 milljarða íslenskra króna fyrir kantmanninn knáa. Brynhildur var þá að auglýsa buxur á afslætti sem Mudryk virtist mögulega spenntur fyrir.
Brynhildur er 23 ára gömul en hún lagði knattspyrnuskóna á hilluna árið 2021 en hafði þá meðal annars leikið með FH, Fylki og Hetti.