Í fréttum Vísis, RÚV og MBL í morgun kemur fram að þrír einstaklingar hafi verið fluttir á slysadeild eftir að eldur kom upp í húsnæði við Stangarhyl í Árbænum í Reykjavík á sjötta tímanum í morgun. Einn þeirra er sagður vera þungt haldinn.
Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði MBL að sækja hafi þurft þann sem liggur þungt haldinn á slysadeild inn í húsið en aðrir komist út af sjálfsdáðum.
Eldurinn kviknaði klukkan 5:50 og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn. Búið er að slökkva eldinn og verið er að reykræsta.
Stefán tjáði Vísi að umrætt húsnæði sé ekki byggt sem íbúðarhúsnæði en búið hafi verið að útbúa litlar íbúðir innan þess.
Þetta er að minnsta kosti þriðji stóri bruninn sem upp kemur á undanförnum mánuðum í húsnæði sem nýtt var til búsetu en ekki byggt sem slíkt. Í sumar kom upp eldur í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði sem nýtt var til búsetu og komust sumir íbúar naumlega undan eldinum.
Í síðasta mánuði lést síðan maður í bruna í húsnæði við Funahöfða í Reykjavík sem búið var í en var ekki hugsað til búsetu.