fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt: Ný byltingarkennd vídd í jafnréttisbaráttunni: Skattleysi eldri borgara

Eyjan
Laugardaginn 25. nóvember 2023 13:19

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðustu árhundruðin hefur farið fram margvísleg réttindabarátta þar sem hinir ýmsu hópar þjóðfélagsins, sem minna hafa mátt sín, hafa reynt að sækja aukinn rétt til valda og fjármuna.

Karlmenn lengst af með undirtökin

Lengi voru völd og réttur í höndum karlmanna, oft þeirra eldri, einkum ef þeir réðu fyrir miklum fjármunum og/eða komu af ættum, sem höfðu í gegnum ár og aldir tryggt sína stöðu og forréttindi í þjóðfélaginu.

Framsókn kvenna

Á seinni hluta nítjándu aldar fóru kvenskörungar í vaxandi mæli af stað með kröfugerð, fyrst um rétt til að greiða atkvæði um hverjir skyldu fara með völdin og stjórna, og svo, eða jafnhliða, um það að geta boðið sig fram til setu á þingi.

Á Norðurlöndum riðu Finnar á vaðið með fullan kosningarétt kvenna 1906, Norðmenn 1913, Danir 1915 og við Íslendingar komum svo með óvenjulegan kosningarétt kvenna, líka 1915. Bara fyrir 40 ára og eldri. Svisslendingar veittu konum fyrst fullan kosningarétt 1971.

Aðrir baráttuhópar fyrir auknum réttindum

Í millitíðinni hafa alls kyns hópar háð baráttu fyrir stöðu sinni og réttindum í þjóðfélaginu, og bar þar framan af hæst barátta hinsegin fólks fyrir sínum réttindum.

Margvísleg önnur réttindabarátta hefur verið í gangi: Barátta kvenna fyrir rétti til fóstureyðinga (hér hefur rétti fóstursins reyndar mikið verið ýtt til hliðar, þó það breytist í lifandi veru, mannveru, 22 dögum eftir getnað, þegar hjartað byrjar að slá), baráttan fyrir rétti til menntunar, launa og lífskjara, velferðar og öryggis,  sjúkraþjónustu og nú, kannske síðast, fyrir rétti kvenna til að fá frið fyrir áleitni karla, nema ef/þegar þær vilji og þeim hentar. METOO.

Lögmál frumskógarins 

Í harðri samkeppni um velferð og völd í þjóðfélaginu gildir oft einfalt lögmál: Þeir sterku verða ofan á og þeir veiku, þeir sem minna mega sín, verða undir.

Ellin laskað skeið

Þegar menn eldast og horfa upp á aldurinn, með öllu því, sem honum fylgir, færast yfir sjálfa sig, ættingja, vini og aðra samferðamenn, opnast augun fyrir því að ellin er all laskað lífsskeið fyrir flestum.

Á margan hátt verður staðan auðvitað verst ef andleg heilsa og geta bila. Hvernig eiga menn þá að bjarga sér í gegnum þann brimgarð kvaða og skyldna, sem þjóðfélagið leggur þeim á herðar?

Á síðustu árum hefur undirritaður horft upp á það, hvernig eldri borgarar hafa, hvað eftir annað, setið eftir, þegar þeim fjármunum, sem þjóðfélagið hefur til skiptanna, hefur verið útdeilt.

Réttur hins sterka 

Hér kemur auðvitað að því, sem áður var nefnt; rétti hins sterka. Yngri kynslóðir virðast jafnan hafa tilhneigingu til að skammta sér fyrst. Fatlaðir, sjúkir og aldnir koma svo aftar á merinni.

Framlag eldri borgara grundvöllurinn

Ef menn fara um stræti og torg þorpa og bæja, eða um sveitir landsins vítt og breitt, blasa við innviðir – margvísleg verk manna og mannvirki; vegir, brýr, hafnir, flugvellir, virkjanir, gróðursvæði og skógar, skólar, sjúkrahús og byggingar hvers konar – sem yngri kynslóðirnar, ráðandi kynslóðir, nota sér og nýta til síns lífs- og allra athafna.

Að verulegu leyti eru það eldri borgararnir, kannske 66  ára og eldri, sem lögðu alla þessa innviði af mörkum, gerðu yngri kynslóðunum fært að njóta lífsins í þeim mæli, sem þeir gera, með löngu og miklu vinnuframlagi, útsjónarsemi og úrræðum, svo og sínum skattgreiðslum. 

Eftir 50 ár skuld greidd

Mat undirritaðs er, að eldri borgarar hafi þá þegar jafnað skyldur sínar og skuld við samfélagið, eftir 50 ára vinnu- og skattaframlag og að tími sé til kominn, þegar menn verða 70 til 75 ára, að þeir fái frið fyrir fjárhagslegri kröfugerð og framlagi til samfélagsins.

Með tilliti til þess réttar, sem eldri borgarar hafa áunnið sér og eiga skilið, vil ég leggja fyrir þá hugmynd og tillögu að með og frá 70 ára aldri lækki allir skattar og skyldur til þjóðfélagsins um 20% á ári, þannig að þegar 75 ára aldri er náð verði skattaskyldur við þjóðfélagið komnar niður á núll. Fyrir alla. Menn greiði þó áfram fjármagnstekjuskatt af vöxtum, arði af verðbréfum, leigu o.s.frv.

Betra líf og örvun hagkerfisins

Ætla má, að allir eldri borgarar, sem vettlingi geta valdið, myndu nýta aukin fjárráð til eyðslu og neyzlu – flestir vita, að þeir fara ekki með neitt með sér – og myndi niðurfelling beinna skatta á 75 ára og eldri skila sér í aukinni neyzlu, sem um leið þýddi ákveðna viðbótar grósku fyrir efnahagslífið og auknar skatt- og virðisaukaskatttekjur frá verzlun, þjónustu og atvinnulífinu öllu.

Jöfnun tekjumissis hins opinbera

Skattlagning er viðkvæmt en nauðsynlegt mál. Þar verður að stíga varlega og yfirvegað til jarðar. Ein tegund skattlagningar er þó fyrir mér ekki jafn viðkvæmt mál og aðrar; erfðafjárskatturinn. Þar er sá, sem verðmætin átti, farinn í annan heim. Hans hagsmunir á þessari blessuðu jörð að engu orðnir. Erfingjar, stundum vandalitlir eða vandalausir, eiga fyrir mér lítinn siðferðislegan rétt til erfarfjárins. Ekki hafa þeir búið fjármunina til eða lagt mikið til við myndun þeirra. Oftast alla vega ekki.

Hagfræðideild Háskóla Íslands reiknaði út fyrir undirritaðan hvað þetta skattleysi myndi kosta opinbera aðila. Með hóflegri hækkun á erfðafjárskatti mætti dekka þessa tekjuskerðingu opinberra aðila. 

Skattleysi eldri borgara gegn erfðafjárskatti; hvað gæti passað betur saman!?? Eins og flís við rass.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á