Ummæli fyrrum varnarmannsins William Gallas, sem spilaði með Arsenal, Chelsea og Tottenham, hafa verið rifjuð upp í enskum miðlum en þau líta ekki vel út í dag.
Það var árið 2021 sem Gallas tjáði sig um skipti Ben White frá Brighton til Arsenal en hann kostaði 50 milljónir punda. Gallas var gáttaður í ljósi þess að um svipað leyti keypti Manchester United Raphael Varane frá Real Madrid á rúmar 40 milljónir punda.
„Það er erfitt fyrir mig að skilja af hverju Arsenal er að eyða 50 milljónum punda í leikmann sem hefur ekki sannað sig á hæsta stigi og á sama tíma getur Manchester United eytt 40 milljónum punda í Varane,“ sagði Gallas árið 2021.
„Þú þarft að útskýra fyrir mér hvernig þetta getur gerst. Kannski er það því Ben White er enskur. Varane er í öðrum gæðaflokki en Ben White. White er enn ungur og hefur ekki sannað sig. Hvernig geturðu sett 50 milljóna punda verðmiða á hann?“
Eins og vakin er athygli á í dag hafa ummælin ekki elst vel en White hefur verið algjör lykilhlekkur í liði Arsenal undanfarin ár á meðan Varane er úti í kuldanum hjá United og er talinn á förum.