Félagar Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Grindavík, Björgunarsveitin Þorbjörn, Slysavarnadeildin Þórkatla og Unglingadeildin Hafbjörg, tóku í morgun fyrsta skrefið í að snúa aftur heim í Grindavík þegar nýtt skilti var sett á björgunarsveitarhúsið.
Eins og alþjóð veit þurftu íbúar Grindavíkur að rýma bæinn föstudagskvöldið 10. nóvember síðastliðinn. Neyðarástand Almannavarna var fært niður á hættustig í vikunni og hafa íbúar fengið rýmri heimildir til að kanna ástand húseigna sinna í bænum og sækja verðmæti heim til sín.
„Við tókum fyrsta skrefið í áttina heim núna í morgun þegar við settum upp nýtt skilti á björgunarsveitarhúsið,“ segir í færslu Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar á Facebook.
„Í dag eru tvær vikur síðan bærinn var rýmdur og með hverjum deginum sem líður styttist í að við komumst aftur heim. Við fögnum því að nú séu rýmri heimildir til þess að koma til Grindavíkur og að fólk geti sótt eigur sínar að einhverju leiti. Í gær var fyrsti dagurinn í nýju skipulagi en það var jafnframt fyrsti dagurinn þar sem bærinn okkar leit út eins og áður, líflegur og fullur af fólki. Við hlökkum til að koma aftur heim. Grindvíkingar Gefast Ekki Upp.“
Björgunarsveitir á Suðurnesjum hafa staðið vaktina alla daga síðan bærinn var rýmdur með dyggri aðstoð félaga þeirra í öðrum björgunarsveitum víðs vegar af landinu.