Knattspyrnudeild Þórs hefur náð samkomulagi við portúgalska framherjann Rafael Victor um að leika með Þórsliðinu næstu tvö árin.
Rafael kemur til Þórs frá Njarðvík þar sem hann gerði 13 mörk í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð og var þar með þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.
Hann hefur einnig leikið með Þrótti og Hetti/Huginn hér á landi auk þess að hafa spilað sem atvinnumaður í Póllandi og Ísrael auk heimalands síns, Portúgal, á ferli sínum en Rafael er 27 ára gamall.
„Ég valdi Þór af því að ég trúi á það verkefni sem þeir eru með í gangi. Ég fann að þeir höfðu virkilega trú á mínum hæfileikum og trúa að ég geti hjálpað þeim að ná markmiðum félagsins. Ég hlakka til að hefja þetta ferðalag,“ segir Rafael Victor.
Sigurður Heiðar Höskuldsson tók við þjálfun Þórs á dögunum og virðist mikill hugur í félaginu að komast upp í efstu deild.