Sagt er frá þessu í skemmtilegri tilkynningu frá Íslenskri getspá.
„Hún reyndist mjög heppin, en ekki mjög trúgjörn, fjögurra barna móðirin sem var ein með allar tölur réttar í Lottó þar síðasta laugardag. Hún var alveg viss um að einhver væri að grínast í henni þegar fulltrúi frá Íslenskri getspá hafði samband með góðu fréttirnar; að hún hefði unnið rúmlega 35 skattfrjálsar milljónir.
Það var ekki fyrr en að símtalinu loknu, þegar hún fletti númerinu sem hringt var úr upp á já.is til að kanna hver stæði að baki þessu vel leikna símaati, að hún gat leyft sér að fagna.
„Sú heppna er enn í skýjunum með vinninginn og segist ætla að þiggja ókeypis fjármálaráðgjöf ásamt eiginmanni sínum en þau sjá fram á að geta greitt niður skuldir og jafnvel keypt heppilegra húsnæði fyrir sína stóru fjölskyldu,“ segir í skeytinu.