Kristján Óli Sigurðsson fyrrum miðjumaður Breiðabliks er ósáttur við ummæli sem fyrrum þjálfari liðsins, Ólafur Kristjánsson lét falla á dögunum.
Ólafur mætti þá í hlaðvarpsþáttinn Chess after Dark og talaði um tíma sinn sem þjálfari Breiðabliks. Ólafur vann fyrstu titlana fyrir Breiðablik í karlaflokki.
Ólafur tók við Breiðablik sumarið 2006 og stýrði liðinu í átta ár. Í þættinum sagði Ólafur að oftar en ekki hefðu leikmenn Blika mætt með Coke og rækjusamloku á æfingar.
Þetta segir Kristján að sé mesta þvæla sem hann hafi heyrt. „Þetta innantóma þvaður frá hinum mæta manni, Ólafi Kristjánssyni er honum til minkunnar. Hann lýgur upp í opið geðið á þjóðinni,“ sagði Kristján í Þungavigtinni í gær og var ansi heitt í hamsi.
Þetta er sennilega mesti hestasaur sem ég hef heyrt í hlaðvarpi fyrr og síðar. Hef ég nú heyrt ýmislegt. pic.twitter.com/SM7OLOjF21
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) November 22, 2023
Hann segir að Bjarni Jóhannsson sem var rekinn úr starfi þegar Ólafur tók við hafi ekki látið svona hluti ganga.
„Bjarni Jóhannsson kom með alvöru standard inn í félagið á undan honum, hann hafði unnið alla titlana með ÍBV og Fylki. Hann kemur í Kópavoginn eftir tíma í Grindavík, Bjarni lætur þig ekki mæta tveimur mínútum fyrir æfingu með kóla drykk.“
„Þarna er Ólafur að upphefja sjálfan sig, hann þarf að biðja mig og aðra leikmenn Breiðabliks á þessum tíma afsökunar.“