Maðurinn sem er er grunaður um að hafa stungið samfanga sinn ítrekað á Litla-Hrauni fyrr í dag heitir Ingólfur Kjartansson. Ingólfur, sem er fæddur árið 2002, hlaut átta ára fangelsisdóm fyrir skotárás með þrívídda prentaðri byssu í miðbæ Reykjavíkur í lok síðasta árs. Vísir greindi frá nafni hans í kvöld.
Í frétt miðilsins kemur fram að sá sem varð fyrir árásinni sé þungt haldinn en ekki í lífshættu. Hann situr á Litla-Hrauni grunaður um að bera ábyrgð á skotárás í fjölbýlishúsi í Úlfarársdal á dögunum.
Ingólfur steig fram í viðtali við DV í vor og kvaðst þá vera hættur í glæpum og vera byrjaður að einbeita sér að tónlist. „Hvað glæpi snertir er ég sestur í helgan stein,“ sagði Ingólfur í viðtalinu en hann hafði þá gefið út lag með besta vini sínum, Gabríel Douane. Eins og DV greindi frá særðist Gabríel í áðurnefndri skotárás í Úlfarársdal og því má leiða að því líkum að hnífstunguárásin sem Ingólfur er grunaður um hafi verið hefndaraðgerð fyrir þá árás.