fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fókus

„Ég grét næstum af hamingju þegar ég fór að sofa og heyrði bara eina rödd“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 24. nóvember 2023 18:59

Katrín Edda og dóttir hennar, Elísa Eyþóra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vélaverkfræðingurinn og áhrifavaldurinn Katrín Edda Þorsteinsdóttir var greind með ADHD fyrir viku síðan og fann strax ótrúlegan mun eftir að hafa byrjað á lyfjum.

„Ég grét næstum af hamingju þegar ég fór að sofa og heyrði bara eina rödd, mína rödd að hugsa: „Ha, er ég ein?“ og ekki ringulreið, þyngsli, pendúla, rólur, sveiflur, raddir, tónlist, bassa og ég er mun skipulagðari í hugsun núna,“ segir hún.

Í samtali við DV segir Katrín Edda að það hafi verið ákveðinn léttir að vera greind og fá aðstoð, en greiningin hafi ekki beint komið henni á óvart. Hún rifjar upp hvernig hún var í æsku. „Ég var gjörsamlega á yfirsnúning að láta mig detta á hausinn fyrir athygli, taka hluti af vinum mínum og kasta þeim í vegginn til að sjá hvort þeir myndu brotna,“ segir hún.

Katrín Edda er vélaverkfræðingur hjá Bosch.

Breyttist eftir að hún varð mamma

Aðspurð af hverju hún hafi ákveðið að fara í greiningu núna, orðin 34 ára gömul, segir hún:

„Það sem breyttist var að ég varð mamma.“

Hún og eiginmaður hennar, Markús, eignuðust Elísu Eyþóru í desember 2022.

„Ég hef alltaf verið ofvirk og út um allt, hef fengið að heyra að ég sé ofvirk og kölluð Kata klikk síðan ég var barn. En aldrei datt mér í hug að fara í ofvirknisgreiningu, hvað átti ég að gera í því? Mér fannst fínt að vera ofvirk og vera út um allt. Ég komst upp á lagið með það nokkrum árum áður en ég varð mamma að hafa stjórn á einkennunum. Eins og með hugleiðslu, öndun, svefn, dagbókarskrifum og öðru heilsutengdu,“ segir hún.

„Það gekk miklu betur þá þegar ég hafði tök á því að skipuleggja mig, hugleiða og þannig. En eftir að ég átti Elísu þá bara einhvern veginn varð allt miklu erfiðara. Ég var að reyna að skrifa niður listann minn en svo þurfti ég að skipta á henni. Mig langaði kannski að hugleiða en ég hafði ekki tíma.“

Mæðgurnar í fríi.

Raddir, hróp og læti

Svefnvandi, sem hún hafði glímt við síðan hún varð barn, gerði aftur vart við sig.

„Ég hef alltaf átt við svefnvandamál að stríða, ég þarf alltaf að fara í gegnum stóra rútínu til að geta yfirhöfuð slakað á fyrir svefninn. Frá því að ég var barn man ég eftir því að hafa verið andvaka,“ segir hún.

„Þegar ég fer að sofa eru ekki bara raddir og ekki bara hróp og tónlist sem er há, heldur líka sveiflur eða rólur sem ýta á hausinn. Mjög óþægilegt. Ég náði að ná þessu aðeins niður áður en ég varð mamma en mér finnst þetta hafa aukist síðastliðið ár.“

Ekki mikið talað um ADHD í Þýskalandi

Katrín Edda fékk ávísun frá lækni 2021 að fara í ADHD-greiningu en lét aldrei verða af því.

„En ég fór að leita að geðlækni sem myndi gera þetta, en það er ekki auðvelt hér í Þýskalandi. Það er ekki mikið talað um ADHD hjá fullorðnum hérna,“ segir hún.

Katrín Edda beið í mánuð eftir fyrsta tímanum og svo tvo og hálfan mánuð eftir þeim næsta, þá fékk hún greininguna og lyfseðil. Hún tók strax fyrstu töfluna og átti erfitt með að trúa áhrifunum.

„Ég lá allt í einu í rúminu og var ein. Þetta var svo skrýtið. Ég var í sjokki að liggja í rúminu og heyrði ekki þessar raddir sem ég heyri alltaf. Það var eins og ég væri ein í hausnum á mér,“ segir hún.

Katrín Edda leggur mikið upp úr líkamlegri og andlegri heilsu.

Þarf að borða morgunmat og minni máltíðir

Katrín Edda er vélaverkfræðingur hjá Bosch í Þýskalandi og hefur strax fundið mun í vinnunni, þá sérstaklega þegar kemur að því að hlusta og meðtaka upplýsingar á fundum.

Fyrsta vikan á lyfjunum hefur verið prufukeyrsla og áttaði Katrín Edda sig á að hún þyrfti að breyta aðeins matarvenjum sínum.

„Það sem ég tók strax eftir líka var að ég var mjög lystarlaus, var óglatt og krassaði eitt kvöldið. Ég var ekki vön að borða morgunmat en borða núna eitthvað lítið á morgnana og fæ mér töfluna mína og líður miklu betur, og borða svo minni máltíðir yfir daginn.“

Katrín Edda kemur til dyranna eins og hún er klædd og leyfir fylgjendum hennar á Instagram, sem eru rúmlega 30 þúsund talsins, að fylgjast með ferlinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Var komin á þann stað að mér leið eins og ég væri að panta mér vanlíðan á Amazon“

„Var komin á þann stað að mér leið eins og ég væri að panta mér vanlíðan á Amazon“
Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – „Ég er í sjokki og í skýjunum“

Vikan á Instagram – „Ég er í sjokki og í skýjunum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ferill Katy Perry riðar til falls eftir heimskulegar ákvarðanir

Ferill Katy Perry riðar til falls eftir heimskulegar ákvarðanir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir okkur þurfa að gera þetta til að vernda heilsuna

Ragnhildur segir okkur þurfa að gera þetta til að vernda heilsuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heilabrot: Aðeins örfáir sjá allar konurnar

Heilabrot: Aðeins örfáir sjá allar konurnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Arnór segir gríðarlegan fjölda fólks læknast af stoðkerfisverkjum með hjálp kulda

Arnór segir gríðarlegan fjölda fólks læknast af stoðkerfisverkjum með hjálp kulda
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mía sér um afþreyingu fyrir börnin

Mía sér um afþreyingu fyrir börnin
Fókus
Fyrir 5 dögum

Goðsögnin Bob Newhart er látinn

Goðsögnin Bob Newhart er látinn