Ekaterina, sem er fertug einstæð móðir, er nýlega byrjuð að feta braut stjórnmála í Rússlandi en eins og mörgum er kunnugt getur hún verið þyrnum stráð fyrir andstæðinga Pútíns.
Duntsova hefur verið mjög gagnrýnin á yfirvöld í Kreml og sagt að algjör kyrrstaða hafi ríkt í Rússlandi undir stjórn Pútíns.
Ástralski fréttamiðillinn News.co.au varpaði ljósi á Ekaterinu á dögunum og vísaði meðal annars í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér þar sem hún tilkynnti framboð.
Hún segist elska landið sitt og vilji sjá Rússland verða blómstrandi ríki þar sem lýðræði og friðsæld verður í fyrirrúmi. „En eins og staðan er núna er Rússland á leiðinni í þveröfuga átt,“ segir hún og óttast að Rússland sé á leið til sjálfstortímingar.
Ekatarina leggur áherslu á það að hún er venjulegur Rússi og ekki af neinni forréttindafjölskyldu. Hún segist ekki óttast framboð gegn sitjandi forseta af þeirri ástæðu að hún nýtur stuðnings fjölskyldu sinnar. Í ræðum sínum hefur hún kallað eftir rýmra tjáningarfrelsi í Rússlandi og gagnrýnt fjölda pólitískra fanga í rússneskum fangelsum.
„Líf hins venjulega rússneska borgara verður erfiðara með hverjum deginum. Borgarar geta ekki nýtt frelsi sitt til að tjá skoðanir sínar ef þeir standa gegn hagsmunum yfirvalda; fjöldi pólitískra fanga vex og mörg hundruð þúsund íbúar hafa verið hraktir út fyrir landsteinana.“
Þá segir hún að hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu hafi einangrað ríkið og einu hreinu bandamennirnir séu núna Íran, Norður-Kórea og Eritrea.
Í umfjöllun ástralska fjölmiðilsins kemur fram að Ekatarina sé þegar komin undir smásjá yfirvalda. Þannig hafi hún verið kölluð til yfirheyrslu hjá saksóknara í heimasýslu sinni.
Fastlega er búist við því að Vladimír Pútín verði áfram forseti Rússlands nema eitthvað mikið breytist. Kosningar fara fram í mars á nýju ári og ef Pútín verður kosinn verður hann forseti til ársins 2030.