„Sennilega er þetta fyrsti bakhjarl íslenska landsliðsins sem er af norskum uppruna,“ segir Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna á Íslandi, í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis í morgun.
Eins og DV greindi frá í gær hefur HSÍ gert samning við Arnarlax um að fyrirtækið verði einn af bakhjörlum sambandsins. Verður vörumerki fyrirtækisins á baki allra keppnistreyja landsliða Íslands í handbolta.
Guðmundur Þ. Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, gagnrýndi þetta harðlega og sagði samningin vera hneyksli.
Sjá einnig: Gummi Gumm urðar yfir HSÍ og nýjan samning þeirra – „Sýnir stórkostlegan dómgreindarskort af hálfu formanns“
„Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landslið til að lappa upp á dapurlega ímynd sína er óskiljanlegt. Eitt get ég sagt að ég hefði aldrei samþykkt sem þjálfari landsliðsins á sínum tíma að bera slíka auglýsingu,“ sagði Guðmundur meðal annars.
Elvar Örn segir í grein sinni á vef Vísis að það sé dæmigert að óvinsælt fyrirtæki í rekstri sem 70% þjóðarinnar eru mótfallin sækist eftir að baða sig í ljósi vinsælda þjóðaríþróttarinnar.
„Þetta er ekki beint grænþvottur, ekki beint hvítþvottur, kannski íþróttaþvottur? Eins og alþjóð veit stafa óvinsældirnar af ítrekuðum og alvarlegum umhverfisspjöllum í sjókvíaeldi undanfarna mánuði og ár. Sjókvíaeldisiðnaðurinn hefur náð á skömmum tíma þeim merka árangri að láta milljónir eldislaxa drepast í kvíum sínum, leyfa hundruðum þúsunda eldislaxa að sleppa út í náttúruna, dreifa frjóum norskum eldislaxi í íslenskar ár og nú nýlega að valda versta lúsafaraldri sem sést hefur í þessum bransa,“ segir hann og vísar einnig í 120 milljóna króna sekt sem fyrirtækið fékk á sig þegar meira en 80.000 eldislaxar sluppu úr kvíum þeirra.
„Þetta er ekki gott fyrir ímyndina….hvað gerir maður þá? Nú auðvitað að kaupa sig inn í sameiningartákn þjóðarinnar, íslenska landsliðið.“
Elvar Örn segir að þetta viti ekki á gott.
„Hins vegar hef ég meiri áhyggjur af árangri íslenska landsliðsins á komandi handboltamótum. Ef vörnin hjá þeim verður jafn lek og netin hjá Arnarlaxi, veit það ekki á gott. Hins vegar er vonarglæta fyrir sóknina, þar sem að nýi bakhjarlinn hefur mikla reynslu af því að komast framhjá öllum vörnum og troða sér áfram þvert á vilja fólks.“
Elvar segir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé andvígur sjókvíaeldi og heimurinn sé meira að segja orðinn meðvitaður um að ekki sé allt með felldu í þessum iðnaði.
„Vill HSÍ virkilega vera með merki þessa iðnaðar á baki sínu og þannig kynna land og þjóð?“
Alla grein Elvars má nálgast á vef Vísis.