fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Þurfti á hundunum sínum að halda vegna andlegra veikinda – Fékk ekki að hafa þá í heimaeinangrun

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 21. nóvember 2023 20:30

Myndin er samsett. Hundurinn á myndinni tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 17. nóvember síðastliðinn var kveðinn upp úrskurður matvælaráðuneytisins um kæru sem lögð var fram vegna synjunar Matvælastofnunar á leyfi til að einangrun tveggja hunda sem fluttir voru til landsins færi fram í heimahúsi. Óskaði kærandinn eftir leyfinu á grundvelli þess að viðkomandi þyrfti á hundunum að halda vegna andlegra veikinda. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar um að synja leyfi til heimaeinangrunar.

Í úrskurðinum kemur fram að málsatvik séu þau að í júlí 2023 hafi Matvælastofnun borist fyrirspurn frá kæranda um skilyrði heimaeinangrunar. Matvælastofnun hafi  svarað erindinu og vísað til ítarlegra leiðbeininga um innflutning hjálparhunda á vef stofnunarinnar. Í október síðastliðnum hafi Matvælastofnun borist svar með umsókn um hefðbundna einangrun þar sem tekið hafi verið fram að hundarnir kæmu til landsins í október og færu í einangrun í einangrunarstöð. Með erindinu hafi fylgt tvær umsóknir um leyfi til innflutnings á hundi. Í kjölfarið hafi umsóknirnar farið í hefðbundið ferli, leyfisgjald innheimt og leyfisbréf gefið út.

Í síðari hluta október 2023 hafi Matvælastofnun borist heilbrigðisvottorð og nauðsynleg fylgigögn fyrir innflutningi hundanna. Stofnunin hafi samþykkt gögnin. Nokkrum dögum síðar hafi Matvælastofnun borist símtal frá kæranda þar sem spurst hafi verið fyrir um heimaeinangrun fyrir umrædda hunda. Kærandi hafi þá ekki sótt um undanþágu fyrir heimaeinangrun og hann verið upplýstur um reglur sem gilda um hjálparhunda og heimaeinangrun.

Hins vegar segir í úrskurðinum að í gögnum málsins komi fram að þegar hundarnir komu til landsins í lok október 2023 ásamt eigendum hafi það komið konunni og fjölskyldu hennar í opna skjöldu að hundarnir væru á leið í hefðbundna einangrun en ekki heimaeinangrun. Degi síðar hafi Matvælastofnun borist beiðni um undanþágu til þess að hafa tvo hunda í heimaeinangrun sem hafi verið hafnað. Ákvörðunin hafi þegar verið kærð til matvælaráðuneytisins.

Sagði sér vera mismunað

Í úrskurðinum koma fram þau sjónarmið kærandans, sem er kona, að fyrir liggi vottorð þar sem fram komi að andlegt heilsufar hennar hafi verulega takmarkandi áhrif á daglegt líf. Hún sé algjörlega háð því að hafa hundana hjá sér og að óvíst sé hvort að hún sé vinnufær vegna þess ástands.

Lögmaður konunnar vísaði til þess að hjálparhundar séu skilgreindir í reglugerð um innflutning hunda og katta með þeim hætti að hjálparhundur sé leiðsöguhundur fyrir blinda, merkjahundur fyrir heyrnarskerta eða hjálparhundur fyrir hreyfihamlaða, flogaveika og sykursjúka, sem aðstoði einstaklinga með þessar greiningar við að takast á við umhverfi sitt og hafi til þess vottaða þjálfun sem samþykkt sé af Matvælastofnun. Lögmaðurinn taldi að heimilt að fella mál konunnar undir þessa skilgreiningu með vísan til  umrædds vottorðs. Ómálefnalegt sé að gera greinarmun á andlegri og líkamlegri fötlun og veikindum og ljóst sé að hindranir sem fylgi andlegum kvillum séu síst minni en þær sem fylgi sýnilegum og líkamlegum veikindum.

Enn fremur segir í úrskurðinum að vísað hafi verið til þess að aðstæður til heimaeinangrunar á heimili konunnar séu til fyrirmyndar. Hundarnir hafi ferðast til landsins í farþegarými flugvélarinnar og því hafi sóttvarnarhætta, ef einhver slík hætta stafaði virkilega af hundunum, í raun þegar verið til staðar. Þar af leiðandi væri ekki í samræmi við meðalhóf að heimila ekki heimasóttkví.

Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurðinum var ekki sótt um heimasóttkví á fyrri stigum málsins vegna misskilnings af hálfu kæranda.

Í kærunni kom einnig fram að konan þurfi nú að þola gríðarlegar andlegar þjáningar vegna aðskilnaðar frá dýrunum og þess vegna væri eindregið farið fram á að einangrunarvist hundanna verði a.m.k. stytt sé ekki unnt að fallast á heimasóttkví.

Matvælastofnun segir ekki um hjálparhunda að ræða

Í úrskurðinum segir að Matvælastofnun hafi rökstutt synjun sína með því að í reglugerð um innflutning hunda og katta sé kveðið á um einangrun til að fyrirbyggja að sjúkdómar berist til landsins. Stofnunin hafi ekki heimild til þess að leyfa heimaeinangrun hunda nema um sé að ræða vottaða hjálparhunda sem hafi hlotið þjálfun sem samþykkt sé af Matvælastofnun. Umræddir hundar falli ekki undir skilgreiningu á hjálparhundum í reglugerðinni.

Heimilt sé undir vissum skilyrðum að einangra hjálparhunda, sem fluttir séu til landsins, í heimahúsum til að koma til móts við þá einstaklinga sem glími við fatlanir og veikindi og þurfi á hjálp hinna sérþjálfuðu hunda að halda. Hundarnir í umræddu máli séu hins vegar ekki hjálparhundar. Vísaði stofnunin í skilgreiningu samtakanna Asisstance Dogs International. Þar komi fram að hjálparhundar séu hundar sem hlotið hafi sérstaka þjálfun til þess að aðstoða fólk með fötlun og veikindi til þess að takast á við umhverfi sitt. Hins vegar séu svokallaðir stuðningshundar gæludýr sem veiti einstaklingi með fötlun tilfinningalegan stuðning og huggun með nærveru sinni.

Hundarnir í umræddu máli séu stuðningshundar og stofnunin hafi ekki heimild til að leyfa að slíkir hundar séu einangraðir í heimahúsi. Sé gefið færi á slíku sé líklegt að það verði misnotað.

Í úrskurði sínum tekur matvælaráðuneytið undir með Matvælastofnun um að umræddir hundar séu ekki hjálparhundar miðað við skilgreiningu reglugerðarinnar um innflutning hunda og katta heldur stuðningshundar. Umsókn um heimaeinangrun hafi þar að auki komið of seint fram. Þar af leiðandi séu ekki til staðar skilyrði til að heimila heimaeinangrun og því sé ákvörðun Matvælastofnunar staðfest.

Úskurðinn í heild sinni er hægt að lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“