„Við boðum til samstöðufundar við nýjar og glæsilegar, tugmilljarða, höfuðstöðvar Landsbankans við Hafnartorg, fimmtudaginn 23.nóvember, kl.14,“
segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, í færslu á Facebook sem hann biður fólk vinsamlega um að deila. Með fundinum vill hann, ásamt Herði Guðbrandssyni formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur, „með friðsælum og táknrænum hætti þrýsta á banka og lífeyrissjóði um að koma betur til móts við Grindvíkinga sem nú þurfa að finna sér nýtt húsnæði með tilheyrandi kostnaði á meðan bankar og lífeyrissjóðir gefa ekki krónu eftir.
Það er lágmarks krafa okkar að vextir og verðbætur verði felldar niður tímabundið eða á meðan mesta ósvissan ríkir.“
Hvetja þeir fólk til að mæta og sýna samstöðu í verki. Ef fólki verði hleypt inn í höfuðstöðvarnar sé gengið inn í glæsilegan móttökusal Landsbankans á móti verslun 66°norður við Hafnartorg.
„Vonumst til að sjá sem flesta. Við stefnum á að gera þetta að daglegum viðburði eða þangað til bankarnir gangast við ábyrgð sinni og komi myndarlega til móts við hrikalega stöðu og óvissu sem blasir við íbúum Grindavíkur.
Okkur þætti vænt um að þú sýnir þessari aðgerð okkar, eða nauðvörn, stuðning með því að deila þessum skilaboðum og vekja þannig athygli á þeim.“