fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

„Mér finnst það aukast að fólk ætli heim, grindvíska hjartað vera að styrkjast“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 20. nóvember 2023 12:30

Vilhjálmur Árnason. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á Íslandi þá erum við bara snillingar í því að láta náttúru og mann lifa saman. Ég treysti vísindamönnum sem hafa fleiri mæla og meiri vitneskju. Það var byggt upp í Vestmannaeyjum með miklu minni upplýsingar, þar kom eldgosið að óvörum, það hefur ekki komið upp eldgos að óvörum í Grindavík. Þannig að það verður öruggt að búa þar,“

segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, sem segist sannfærður um að Grindavík muni byggjast upp að nýju og að fólk muni vilja snúa aftur til síns heima. „Mér finnst fólk sem var mjög svartsýnt í upphafi, það er núna „ég trúi ég ætla heim“, mér finnst það aukast að fólk ætli heim, grindvíska hjartað vera að styrkjast.“

Reynir á seigluna í Grindvíkingum

Vilhjálmur og eiginkona hans voru stödd í New York þegar Grindavík var rýmd föstudaginn 10. nóvember og segist hann þakklátur fyrir að hafa sloppið við skjálftahrinuna. Hann segist finna mun á þeim sem voru í Grindavík til 22-23 á föstudagskvöldinu og segir þá einstaklinga verr stadda andlega og þá munu eiga erfiðara með að vinna úr áfallinu en aðra.

„Seiglan í Grindvíkingum, það var farið að reyna á hana. Þetta er búið að vera fjögur ár, svo kemur svona hörð hrina, svo margfaldast harða hrinan, þetta reynir rosalega á seigluna.“

Vilhjálmur segir það hafa verið erfitt að vera úti og hvenær hann ætti að koma heim. Þennan föstudag sem hrinurnar mögnuðust svona hratt þá sat hann í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna með Ísraelsmenn öðru megin og Palestínumenn hinu megin. „Þetta var svo súrrealískt og ég náði varla að halda fókus, þegar var byrjað að rýma bæinn minn. Ég átti að koma heim í gærmorgun [18. nóvember], en kom heim síðasta sunnudagsmorgun [12. nóvember].“ 

Vill að Grindvíkingum verði gert kleift að kaupa nýtt húsnæði

Þangað til að Grindvíkingar geta snúið aftur heim vill Vilhjálmur að óvissu Grindvíkinga sé eytt með aðkomu fjármálastofnana, seðlabanka og stjórnvalda. Leggur hann til að Grindvíkingum sé gert kleift að kaupa fasteignir á höfuðborgarsvæðinu með hlutdeildarlánum fyrir útborgun og afborgunum á lægri vöxtum en nú er boðið upp á. 

„Þetta eru 1200 heimili á vergangi núna og það er ekki ein lausn sem mun henta öllum. En þessi hugmynd fæðist í þessum veruleika sem við erum í og hvað við erum að upplifa. Það er fjöldinn allur af verktökum og fasteignasölum búin að benda okkur á aragrúa af lausu húsnæði á þessum frosna íbúðamarkaði hér. Leigumarkaðurinn er gríðarlega erfiður og dýr. En það er svo mikið af verktökum með tugi og hundruði íbúða, sem eru nær tilbúnar og hægt að flytja inn í. Þeir geta ekki leigt þetta af því þeim vantar peninga til að komast í næsta verkefni eða gera upp við bankann,“ segir Vilhjálmur, sem segir auðveldustu eignirnar vera nýbyggðar eignir sem verktakar eiga ennþá eða fasteignafélög. 

„Þá segi ég ef við fáum bið á húsnæðisláninu á húsinu sem við megum ekki búa í, þá getum við fengið nýtt húsnæðislán á þessa nýju fasteign og ríkið hjálpar okkur með því að koma með hlutdeildarlán. Það kerfi væri útfært fyrir okkur, þannig að ríkið sér um útborgunina. Þá erum við að borga af húsnæði, ekki leigu sem við fáum aldrei til baka aftur, heldur að gera sama og við gerðum í Grindavík að borga af húsnæði og eignumst smá höfuðstól. Þá brennur þessi peningur ekki upp. Þá vitum við að eins lengi og óvissuástand er í Grindavík þá getum við búið að þessum fasta punkti, og fyrir fjölskylduna. Svo þegar er óhætt að flytja aftur heim til Grindavíkur þá fáum við svigrúm í 6-12 mánuði til að selja íbúðina sem við bjuggum í meðan óvissuástandið stóð yfir,. Þá fær ríkið stuðninginn tilbaka, meira að segja með ávöxtun ef húsnæði hefur hækkað í verði og við fáum jafnvel smá höfuðstól. Og við getum farið tilbaka.“ 

Vilhjálmur segir að það sem gerist á meðan sé að verktakinn losnar við fjárfestinguna sína og getur farið að byggja næsta húsnæði sem er það sem húsnæðismarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þurfi. „Ég held að þetta sé auðveldasta og hagkvæmasta leiðin fyrir ríkið að leysa þennan vanda. Og það róar okkar andlegu líðan að fá þetta öryggi fyrir fjölskylduna okkar. Af því ef ég er að gera leigusamning, er ég að gera hann til þriggja mánaða, sex mánaða, tveggja ára, ég hef ekki hugmynd um það. Eða ef við erum bara borguð út núna og getum búið okkur til nýtt heimili og fáum þá að kaupa húsnæðið okkar tilbaka þegar óvissuástandi er aflétt.“

Vilhjálmur bendir á að jafnvel þurfi að fara í fleiri lausnir. „Við höfum heyrt að ríkið leigi íbúðir fyrir okkur, eitthvað ríkisleigufélag, ég held bara að það sé alltof svifaseint. Kannski þarf það í einhverjum tilfellum, þannig að við gætum þurft að fara margar lausnir. Svo hef ég heyrt lausnir um að Nátturuhamfaratrygging með stuðningi ríkissjóðs og Seðlabankans mögulega borgi okkur bara út. Þetta eru held ég 80 milljarðar sem brunabótamat er í Grindavík á íbúðarhúsnæðum. Það vantar fyrirtækin inn í, þá ertu kominn í 150 milljarða.“

Atvinnulífið þarf aftur í gang

Vilhjálmur segir að atvinnulífið verði að koma til baka til Grindavíkur, annars komi Grindavík ekki til baka. „Þetta er gríðarlega erfitt ástand og ég vonast, þó að íbúarnir geti ekki flutt strax heim, þá er ég að vonast til að fyrirtækin fái bara um leið og hættuástandi lýkur farið að vinna, þó íbúarnir komi ekki í húsin strax. Ef við tryggjum íbúum öruggt skjól þá verður að bjóða sætaferðir þar til íbúar geta flutt heim. Það er þjóðhagslega mikilvægt að atvinnustarfsemi Grindavíkur fari í gang sem fyrst,“ segir Vilhjálmur.

„Stærsti ferðamannastaðurinn Bláa lónið skaffar 800 manns vinnu, það eru 800 fjölskyldur sem treysta afkomu sína á Bláa lóninu. Það eru bara 150 af þeim sem búa í Grindavík, þannig að það er fólk annars staðar í samfélaginu sem er hrætt um afkomu sína. Bláa lónið kaupir gríðarleg aðföng, bæði í Grindavík og utan hennar.  Stór hluti ferðaþjónustunnar nýtir sér Bláa lónið. 67% af þeim sem pæla í að heimsækja Ísland gúggla Bláa lónið, Gullni hringurinn er í öðru sæti með 11-13%“

Á deiluefnið að vera varnargarðar?

Vilhjálmur bendir á að höfnin í Grindavík sé aflaverðmætasta botnfiskhöfn á Íslandi, „útflutningsverðmæti í Grindavík ef þú tekur 75 megawatta orkuver HS orku, ef það fer þá er Hvammsvirkjun búin að núllast sem er ekki byrjað að byggja, þá þarf að skerða rafmagn til fyrirtækja annars staðar á landinu. Það eru tæplega 300 manns í Vísi og sami fjöldi í Þorbirni, 60-70 manns í Einhamri, sem er að sinna þvílíkum útflutningi. Svo er það fullvinnslan, Haustak sem er úti á Reykjanesi, sem býr til verðmæti úr sjávarfangi, þeir eru ekki að fá neitt hráefni. Sjávarútvegurinn er að versla fyrir milljarða á mánuði af fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Ef heita vatnið fer af Suðurnesjum þá eru 13 þúsund heimili, um 30 þúsund manns, án heits vatns, hvert væri tjónið fyrir íslenska þjóð? Ef við ætlum að fá olíukalla til að hita heitt vatn fyrir Suðurnesin til að bjarga því sem bjargað verður, þá kostar olían 2 milljarða á mánuði. Ætlum við að láta 3 milljarða varnargarða vera deiluefnið í þessu?“ spyr Vilhjálmur. 

Íþróttirnar muni halda samfélaginu saman

Þegar kemur að umræðu um skóla og íþróttahald segir Vilhjálmur: „Íþróttirnar eru það sem mun halda samfélaginu saman. Við eigum samfélagið ennþá, það besta sem við gerum er að hitta hvort annað. Það var stór dagur í Smáranum á laugardag, þegar karla- og kvennaliðið í körfunni voru að keppa og fengu gríðarlegan stuðning. Við finnum stuðninginn frá þjóðinni og munum sigrast á þessu með þeim stuðningi. Öll íþróttafélögin hafa gert vel og boðið okkar krakka velkomna. Íþróttahreyfingin í Grindavík hefur líka gert vel og fengið tíma. Þó það sé bara einu sinni í viku, þá veit ég núna að synir mínir geta mætt einu sinni í viku og æft og hitt skólafélagana. Íþróttalífið mun verða þannig að þú æfir í því hverfi sem þú býrð og svo muntu hitta félaga þína einu sinni í viku.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni á Brotkast. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti