fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

„Ríkisstjórnin mun áfram standa vaktina með Grindvíkingum“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. nóvember 2023 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Grindvíkingar takast nú á við nýjan veruleika fjarri heimilum sínum. Verkefnin fram undan eru mörg og snúa meðal annars að húsnæðismálum, skólagöngu barna, afkomu fólks og sálrænum stuðningi. Sveitarstjórn Grindavíkur er leiðandi í að halda utan um málefni íbúa sinna og nýtur stuðnings og aðstoðar annarra sveitarfélaga, ríkisins og ríkisstjórnarinnar. Sumu höfum við enga stjórn á – náttúruöflin eru einfaldlega miklu stærri en við. En annað getum við sannarlega haft áhrif á. Eitt af því er að draga úr áhyggjum fólks í Grindavík af afkomu sinni,“

segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra í skoðunarpistli á Vísi sem ber yfirskriftina: Stuðningur vegna launa fólks sem starfar í Grinda­vík. Segir hann ríkisstjórnina hafa í gær kynnt aðgerðir til þess að draga úr áhyggjum fólks í Grindavík af afkomu sinni.

Fólk sem ekki getur sótt vinnu í Grindavík

Guðmundur rekur að undanfarna viku hafi félags- og vinnumarkaðsráðuneytið unnið að lagafrumvarpi sem hefur það að markmiði að vernda afkomu fólks vegna náttúruhamfaranna í og við Grindavík. 

„Það er gert með því að veita stuðning vegna launa fólks sem starfar í bænum.

Frumvarpið tekur til fólks sem ekki getur lengur sótt vinnu á Grindavíkursvæðinu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Ríkið greiðir fjárhæð upp að ákveðnu hámarki sem gengur upp í laun sem atvinnurekandi greiðir. Við vonumst til að með þessu getum við stuðlað að því að allir atvinnurekendur greiði áfram laun. Frumvarpinu er þannig líka ætlað að viðhalda ráðningarsambandi atvinnurekenda og starfsfólks sem er afar mikilvægt.“

Frumvarpið var samið í samráði við ASÍ og Samtök atvinnulífsins. Segir Guðmundur Ingi að það liggi fyrir að ríkið og Grindavíkurbær munu áfram greiða starfsfólki sínu á svæðinu laun og frumvarpið nær þannig eingöngu til launafólks og atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði, auk sjálfstætt starfandi einstaklinga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

„Framlag ríkisins auðveldar fyrirtækjum að greiða fólki laun og það er mikilvægt að atvinnulífið taki þátt eftir bestu getu til að tryggja sem best afkomuöryggi fólks sem starfar í Grindavík. Þess vegna eru í frumvarpinu sett þau eðlilegu skilyrði á fyrirtæki að þau geti ekki greitt út arð fyrir lok febrúar 2025 nema að endurgreiða stuðning stjórnvalda.“

Dregið úr áhyggjum af afkomu fólks

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið greiði fjárhæð að ákveðnu hámarki sem gangi upp í laun og stuðningurinn geti numið allt að 633.000 krónum á mánuði, auk framlags í lífeyrissjóð. Þetta er sama hámarksfjárhæð og Ábyrgðasjóður launa greiðir. Reiknað er með að kostnaður ríkissjóðs geti orðið á bilinu 1-1,5 milljarður á mánuði.

„Gert er ráð fyrir að lögin gildi út febrúar á næsta ári, en vonandi skýrast aðstæður fólks sem mest á næstu vikum og mánuðum. Ákvörðun um framhaldið verður tekin þegar við sjáum hvernig mál þróast, enda erum við enn í atburðarásinni miðri. Mikilvægast einmitt nú er að draga úr áhyggjum fólks af afkomu sinni og lögin eru þýðingarmikil aðgerð til þess,“ segir Guðmundur Ingi. 

„Grindvíkingar hafa orðið fyrir fjölþættum áföllum og ég dáist að því hvernig íbúar, stjórnkerfi og fyrirtæki í Grindavík hafa tekist á við þetta gríðarlega stóra og óvelkomna verkefni. Ríkisstjórnin mun áfram standa vaktina með Grindvíkingum.“

Hægt er að kynna sér frumvarpið hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!