Sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Akranes, Mýrdalshreppur, Ísafjarðarbær og Mosfellsbær hafa keypt og innleitt Bara tala fyrir starfsfólk sitt, fjölmörg önnur sveitarfélög eru að hefja innleiðingu eins og segir í tilkynningu.
„Hjá Mosfellsbæ starfar stór og öflugur hópur starfsfólks með annað móðurmál en íslensku. Við trúum því að Bara tala sé frábært tæki til að auðvelda starfsfólki okkar að ná valdi á íslenskunni og þannig komast hraðar og auðveldar inn í samfélagið. Það er mjög mikilvægt að lækka þann þröskuld sem íslenskunámið er mörgu erlendu starfsfólki og því hlökkum við til samstarfsins við Bara tala, sem sannarlega býður upp á áhugaverða leið til að efla íslenskukunnáttu,” segir Kristján Þór Magnússon, Sviðsstjóri mannauðs og starfsumhverfis Mosfellsbæjar.
“Ísafjarðarbær vill bjóða erlendu starfsfólki sínu upp á Bara tala og veita því þannig aðgang að stafrænni íslenskukennslu. Sveitarfélagið telur mikilvægt að gefa starfsfólki sínu með íslensku sem annað mál, tækifæri til að efla íslenskukunnáttu í leik og starfi ásamt því að styðja við máltileinkun þess,“ segir Baldur Ingi Jónasson, mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar.
Bara tala er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, endalausn sem byggir á kjarna lausnum íslensku máltækni áætlunarinnar. Boðið er upp á starfstengt íslenskunám og grunnnámskeið í íslensku fyrir vinnustaði. Með notkun sjónrænna vísbendinga og mynda geta notendur auðveldlega bætt orðaforða sinn, hlustunarfærni og hagnýtt minni, sem gefur þegar fram í sækir aukið sjálfstraust þegar íslenska er töluð. Bara tala er ein af fjölmörgum fræðslulausnum hjá Akademias.
,,Í dag eru 23% starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði af erlendu bergi brotin. Þjóðfélagið hefur breyst mikið á síðustu tveimur áratugum og þörfin á hágæða stafrænni íslenskukennslu hefur aukist til muna. Fyrirtæki og sveitarfélög hafa tekið kennslulausninni okkar vel og í dag hafa 18 fyrirtæki og 5 sveitarfélög innleitt lausnina okkar. Við fögnum innilega þessum stóra áfanga á degi íslenskrar tungu!“ segir Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóri Bara tala
,,Þvert á atvinnugreinar telja vinnuveitendur sem Akademias þjónustar með rafrænum fræðslulausnum glerþak vera á vinnumarkaðinum. Þeir sem læra tungumálið eru þeir einstaklingar sem fá framgang í starfi, verða t.d. teymisstjórar og deildarstjórar, og uppskera með því hærri laun og betra líf í íslensku samfélagi. Án tungumálsins er því hætt við að stórir hópar festist í ákveðinni fátæktar gryfju,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akademias
Nánari upplýsingar um Bara tala má finna hér.