Þetta kom fram í máli Víðis í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Það halda áfram að myndast nýjar sprungur og jafnvel það sem var einhver smá misfella í malbiki í fyrradag var orðin sprunga í gær. Þessi mikla hreyfing sem varð á föstudag hefur aðeins haldið áfram og hún tekur tíma að birtast á yfirborðinu. Mér fannst ágætis lýsing sem var notuð í gær að þetta væri eins og að vera á skriðjökli og þú ert að fara yfir sprungusvæði. Margir sem hafa farið á Hvannadalshnjúk þekkja þetta,“ sagði Víðir.
Tiltölulega tíðindalítil nótt er að baki á Reykjanesi þó að um 500 skjálftar hafi mælst. Flestir voru þeir litlir og náði enginn þremur að stærð.
Vísindamenn og aðrir viðbragðsaðilar komu saman til fundar klukkan 09:30 í morgun þar sem þeir munu bera saman bækur sínar og fara yfir nýjustu upplýsingar. Þá hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur tekið ákvörðun um að veita Grindvíkingum sem enn hafa ekki getað vitjað eigna sinna aðgang að svæðinu. Nánar hér.
Aðspurður hvort einhver merki væru um að kvika væri að færast nær yfirborði, sagði Víðir:
„Nei, ekkert sem ég veit ennþá. Þetta eru svo margir þættir sem þarf að skoða, það þýðir ekkert að horfa á einhvern einn mæli heldur samkeyra vísindamenn þessi gögn,“ sagði Víðir og nefndi til dæmis GPS-gögnin sem sýna tilfærslur, jarðskjálftagögn og gasmælingar.
„Við eigum óhemju marga sérfræðinga og það eru allir að leggjast á eitt við að skilja hvað er að gerast þarna. Við sjáum ekki ofan í jörðina þannig að við vitum ekki nákvæmlega hvernig þetta er,“ sagði Víðir sem tók þó fram að líkurnar á gosi hafi ekki minnkað.
Aðspurður hver fyrirvarinn er ef til eldgoss kemur sagði Víðir: „Við gefum okkur það að þetta væru ekkert margar mínútur frá því merki sést þar til kvika kemur upp.“
Víðir sagði að viss svæði í Grindavík væru hættuleg yfirferðar og sprungur gætu opnast nánast fyrirvaralaust. Víðir nefnir til dæmis myndband úr hesthúsahverfinu þar sem einhver sást sparka í jörðina. „Og með 2-3 spörkum var hann búinn að opna stórt gat. Skelin yfir var bara örfáir sentímetrar. Það er það sem við erum hrædd um.“
Víðir segir að jafnvel þó atburðarásinni ljúki í dag sé mikil vinna fyrir höndum við að laga innviði, götur og gangstéttar til dæmis og lagnir þar undir. Ljóst sé að einhverjir íbúar muni ekki geta snúið heim í bráð.
„Sum hús eru talsvert skemmd og ljóst að það verður ekki búið í þeim fyrr en búið er að fara í viðgerðir á þeim ef að er hægt að gera við þau.“ Í öðrum húsum væri til dæmis frárennsli vatns í ólagi og það sé ekki þægilegt að búa við slíkar aðstæður. „Þetta er mjög misjafnt, sums staðar í Grindavík eru hlutirnir betur farnir. Heildarviðgerðir á þessu svæði munu taka marga, marga mánuði þó að atburðarásinni muni ljúka í dag.“